140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili þeim skoðunum með hv. þingmanni að ekki hefði átt að skerða séreignarsparnaðinn úr 4% í 2%, um það vorum við sammála þegar það var afgreitt fyrir áramótin sem tekjuöflun fyrir ríkissjóð.

Ég get líka tekið undir með hv. þingmanni þegar hún bendir á að fólk sé að nota séreignarlífeyrissparnaðinn til að geta í raun staðið skil á skuldbindingum sínum, og eins og menn hafa bent að fjármálafyrirtækin hafi hugsanlega gert kröfu um að fólk taki hann út til að geta staðið skil á skuldbindingum sínum gagnvart lánastofnunum. Ég hef ekki handbær dæmi um það en þetta hefur verið í umræðunni og við þurfum auðvitað að fara yfir það.

Um ríkisvæðingu lífeyrissjóðanna ætla ég svo sem ekki að standa í deilum við hv. þingmann, hvort það sé hugsanlegt í stöðunni að við þurfum að yfirtaka og ríkisvæða alla lífeyrissjóðina, ég vil ekki túlka orð hv. þingmanns þannig að hún telji það skynsamlegt. Það held ég að væri algjört brjálæði. Ég staldra hins vegar við eitt sem ég held að við þurfum líka að ræða í stærra samhengi en það er það umhverfi sem lífeyrissjóðirnir starfa í. Þeir starfa núna í lokuðu hagkerfi þar sem eru gjaldeyrishöft. Sjóðirnir eru núna, eftir því sem mér er sagt, með 21% af heildareign sinni í erlendum eignum og í raun er verið að ganga á þá að minnka eignir sínar á erlendum markaði til að taka þátt í að innleysa krónur. (Gripið fram í: Þjóðnýting.)

Vandamál okkar í þessu kerfi og kannski fyrstu áhyggjurnar sem við þurfum að hafa af því, er hver staða þjóðarbúsins er í raun og veru gagnvart erlendum skuldum og aðgengi að gjaldeyri og hvernig við getum við skapað gjaldeyri og búið til þann viðskiptajöfnuð sem þarf til að geta staðið undir skuldbindingum. Við erum jú með gjaldeyrisvarasjóð sem er í kringum þúsund milljarðar og við þurfum að borga háar vaxtagreiðslur af honum, þannig að við þurfum auðvitað að ræða þetta í stærra samhengi. Við þurfum líka að ræða stöðu lífeyrissjóðanna og hvernig hún (Forseti hringir.) harmónerar við almannatryggingakerfið á hverjum tíma. Við þurfum að fara (Forseti hringir.) yfirvegað í gegnum þessa umræðu.