140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

staða lífeyrissjóðanna, munnleg skýrsla fjármálaráðherra.

[18:40]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem mig langar til að tala um í síðari ræðu minni er fyrirferð íslenskra lífeyrissjóða á fjármagnsmarkaði á Íslandi og ég ætla að bera hana saman við Noreg eins og ég gerði í fyrri ræðu minni.

Þannig er mál með vexti að Norðmenn safna tekjum af olíulindum sínum í svokallaðan auðlindasjóð sem mun í framtíðinni standa undir lífeyrisgreiðslum í Noregi. Norðmenn tóku þá ákvörðun að sjóðurinn yrði ávaxtaður að mestu leyti fyrir utan norska hagkerfið. Það var gert vegna þess að Norðmenn gerðu sér grein fyrir því að sjóðurinn yrði mjög fljótt stór og í raun yrði hann á norskum fjármagnsmarkaði eins og fíll í postulínsbúð.

Norski olíusjóðurinn er svipaður að stærð, aðeins minni að vísu, í hlutfalli við landsframleiðslu og íslensku lífeyrissjóðirnir eru á Íslandi. Íslensku lífeyrissjóðirnir voru skuldbundnir til þess, áður en gjaldeyrishöftin voru sett á, að hafa ekki meira en 50% af eignum sínum erlendis þannig að 50% eigna voru á Íslandi. Eftir að gjaldeyrishöftin voru sett á geta þeir ekkert fjárfest erlendis. Eignir lífeyrissjóðanna í erlendum myntum eru núna rétt rúm 20% af heildareign, sem þýðir það að 1.600 milljarðar eru á innlendum markaði og hafa verið fjárfestir í ýmsu; þeir fjármagna húsnæðiskerfið, ég held að lífeyrissjóðirnir eigi 600 milljarða í húsnæðisbréfum, og öðru sem hægt er að fjárfesta í svo sem ríkisskuldabréfum, hlutabréfum, þeir eiga eitthvað af óskráðum bréfum, skuldabréfum o.s.frv.

Ég held að ástæðan fyrir því að íslensku lífeyrissjóðirnir tóku á sig jafnstórt högg og raun bar vitni hafi verið sú að allt of stór hluti eigna þeirra var inni í íslenska hagkerfinu, á íslenskum fjármagnsmarkaði. Áhættudreifingin var ekki nægilega mikil. Það var ekki við lífeyrissjóðina sjálfa að sakast í þessu sambandi, þeir gátu einfaldlega ekki fjárfest meira.

Núna er eignir lífeyrissjóðakerfisins í kringum 2 þús. milljarðar; um 400 milljarðar eru í eignum erlendis og 1.600 milljarðar í eignum á Íslandi og vegna umfangs síns eru lífeyrissjóðirnir eins og fíll í postulínsbúð, þ.e. í hverjum mánuði þurfa lífeyrissjóðirnir að fjárfesta fyrir í kringum 10 milljarða, 10 nýja milljarða í hverjum mánuði. Samtals þurfa þeir að fjárfesta nálægt 120 milljörðum á þessu ári. Ljóst er að eignir sem þeir geta fjárfest í eru takmarkaðar. Hvað leiðir þetta af sér? Allt eignaverð á Íslandi hefur hækkað og ávöxtunarkrafa hefur lækkað gríðarlega vegna þess að lífeyrissjóðirnir neyðast til að kaupa eignir og þær eru takmarkaðar, þeir verða berjast um að kaupa sömu eignirnar sem þrýstir upp verði þeirra.

Það sem gerist við gjaldeyrishöft er að gríðarlega mikið innstreymi verður af peningum sem þarf að fjárfesta í gegnum lífeyrissjóðina og keppni verður um eignirnar. Þá verður til eignabóla. Þannig að það sem gjaldeyrishöftin gera að verkum í gegnum lífeyrissjóðakerfið er að hér er að þenjast út eignabóla og hætta er á því að sú eignabóla muni springa einhvern tíma í framtíðinni. Það er því mjög brýnt að lífeyrissjóðirnir fái aftur leyfi til að fjárfesta í erlendum eignum, bæði út af þessari eignabólu sem ég lýsi en ekki síst til þess að dreifa betur áhættunni af fjárfestingum sínum. Ég held að ástæðan fyrir því að höggið á lífeyrissjóðina varð jafnmikið og raun bar vitni, þó svo að það hafi ekki verið meira en varð til dæmis á norska olíusjóðinn, megi rekja til þess að þeir gátu ekki fjárfest meira erlendis og allar eignir eru tengdar á svona litlum markaði eins og þeim íslenska.