140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

skuldamál heimilanna og málefni Fjármálaeftirlitsins.

[13:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða aðeins við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um í rauninni tvennt. Í fyrsta lagi langar mig að spyrja hæstv. ráðherra hvort verið sé að skoða í ráðuneyti hans einhverjar tillögur er varða almenna leiðréttingu á lánum heimila.

Í öðru lagi er ég að velta fyrir mér hvort og þá hvaða afskipti hæstv. ráðherra eða ráðuneyti hans hefur haft af málefnum Fjármálaeftirlitsins. Í fréttum 19. febrúar á Stöð 2 var viðtal við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra þar sem fram kom að ráðherrann hafi frétt af fyrirhugaðri uppsögn forstjóra eftirlitsins í fjölmiðlum föstudaginn 17. febrúar. Í hádeginu í dag var Ríkisútvarpið með frétt sem sagði að samkvæmt heimildum fréttastofu hefði Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar FME, gengið á fund efnahags- og viðskiptaráðherra í síðustu viku og rætt þessi mál við ráðherrann. Við hljótum að spyrja okkur hvenær sá fundur hafi farið fram, hvað hafi verið rætt á honum og hvort ráðherrann hafi á þeim fundi verið upplýstur um fyrirhugaða uppsögn.

Það sem vakir fyrir mér með þessari spurningu er að við þurfum að sjálfsögðu að standa við þau skil sem eru á milli Fjármálaeftirlitsins og ráðuneytisins. Ráðuneytið eða ráðherra á að sjálfsögðu ekki að vera með puttana í stjórnun stofnunarinnar. Ef svo er — ég er ekki að segja að svo hafi verið — en þær upplýsingar sem þarna komu fram stangast að einhverju leyti á eða ganga ekki alveg upp að mínu viti, þ.e. ef rétt er að ráðherra hafi frétt þetta í fjölmiðlum 17. febrúar hljóta heimildir Ríkisútvarpsins að vera rangar. Það er kannski grunnurinn að þeirri spurningu sem ég er að koma að: Eru heimildir Ríkisútvarpsins rangar um að formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins hafi gengið á fund ráðherra og rætt þessa stöðu við hann og þá væntanlega fyrir 17. febrúar þegar þetta kom í fréttum?