140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

skuldamál heimilanna og málefni Fjármálaeftirlitsins.

[13:44]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi fyrri spurninguna, þetta eru tvö dálítið stór mál, þá er ýmislegt í skoðun í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu í samstarfi við velferðarráðuneytið, innanríkisráðuneytið og fleiri ráðuneyti sem varða úrvinnslu þessara skuldamála.

Varðandi seinni spurninguna þá er hið rétta í þeim efnum að ráðuneytinu og þar á meðal mér hefur verið gerð grein fyrir því ferli sem stjórn Fjármálaeftirlitsins hafði sett þessi mál í. Það var meðal annars gert á fundi í síðustu viku, það er rétt, en það var eingöngu í upplýsingaskyni til að upplýsa ráðuneytið um það ferli sem stjórnin væri með þessi mál í og ekki til þess að ráðuneytið hefði af því afskipti eða íhlutun um það.

Varðandi fréttaflutning af uppsögn þá sagðist ég ekki hafa vitað af því að uppsögn hefði farið fram fyrr en ég heyrði um slíkt fjallað í fjölmiðlum, enda kom á daginn að það var ekki rétt. Forstjóra Fjármálaeftirlitsins hefur ekki verið sagt upp heldur hefur stjórnin rætt við hann um möguleg starfslok. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa það á hreinu að Fjármálaeftirlitið er og á að vera sjálfstætt í störfum. Þannig er um það kveðið í lögum.

Það er í öðru lagi þannig að fjármögnun Fjármálaeftirlitsins, eins og ég hygg að þingmenn þekki mætavel, er undirbyggð með mjög sérstökum hætti til að undirstrika þetta sama sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins.

Það er í þriðja lagi þannig að ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins verður ekki skotið til ráðherra til æðra stjórnvalds og það eru aftur þessi sömu mörk að Fjármálaeftirlitið er sjálfstætt og fer endanlega með sín mál og því verður ekki skotið annað.

Loks er það þannig að bæði evrópskar og alþjóðlegar reglur leggja okkur þær skyldur á herðar að hafa sjálfstætt fjármálaeftirlit. Þetta passar ráðuneytið mjög vel upp á og ég fullyrði að í þessum samskiptum hefur verið farið algerlega í samræmi við það. Þetta er verkefni og hlutverk stjórnar og hún fer með það og ber á því ábyrgð (Forseti hringir.) og samskipti stjórnarinnar eða formanns og varaformanns við ráðuneytið hafa eingöngu verið á þeim grunni að halda ráðuneytinu upplýstu um það ferli sem í gangi væri á þeirra vegum.