140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

Evrópusambandsmálefni.

[13:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (U):

Frú forseti. Ég er sammála þeim í atvinnulífinu sem segja að íslenska krónan sé fíllinn í herberginu sem enginn vill tala um og ég hef raunar sjálfur notað það orðalag um krónuna. Ég tel það gríðarlega brýnt hagsmunamál fyrir íslensku þjóðina, fyrir heimilin í landinu, fyrir atvinnulífið, að koma á stöðugum efnahagsgrundvelli með því að taka upp annan gjaldmiðil og ég hef talið það sigurstranglegast núna þegar við erum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið að við göngum til evrusamstarfs. (SII: Rétt.) En því er stundum haldið fram að það geti tekið það mörg ár að það hafi eiginlega enga þýðingu að tala um þessi mál núna þegar við erum í þessum vandræðum hér og nú.

Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. utanríkisráðherra til að skýra aðeins þetta ferli. Ég hef alltaf talið og hef líka spurst fyrir, og mér sýnist það til dæmis eiga sér stoð í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar, að kafli í aðildarviðræðunum muni beinlínis fjalla um efnahagsmál, um gjaldmiðilsmál, um stöðugleikamál á Íslandi. Mig langar að vita hvort það sé ekki rétt hjá mér. Eins og segir í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar, þegar lögð var fram tillaga um að sækja um, getur það orðið að veruleika nokkrum mánuðum eftir að aðild er samþykkt, ef hún verður samþykkt, af hálfu Íslendinga og Evrópuþjóðanna að Íslendingar gangi inn í ERM II sem er fordyrið að evrunni. Það mundi fela það í sér að Evrópski seðlabankinn mundi styðja við íslensku krónuna og sjá til þess að hér kæmist á hinn langþráði stöðugleiki sem er stærsta hagsmunamálið fyrir íslensk heimili og fyrirtæki. Það mundi meðal annars þýða að við gætum látið af verðtryggingu og þyrftum ekki að búa við hið óréttláta sveiflusamfélag (Forseti hringir.) sem við búum við núna. Er það réttur skilningur hjá mér á ferlinu sem fer fram? (Gripið fram í.)