140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

Evrópusambandsmálefni.

[13:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki hægt að segja um íslensku krónuna eins og þó er sannarlega hægt að segja um hv. þingmann, að hún eigi sér bjarta framtíð. (VigH: Talaðu aðeins um krónuna …) Ég er alveg sammála því sem hv. þingmaður sagði, krónan hefur skapað okkur margvíslega erfiðleika. Það má að sönnu segja að hún dugi vel núna við að rífa okkur upp úr þeim vanda sem hún skapaði okkur. Við vitum alveg hvað henni fylgir, krónísk verðbólga, háir vextir, mikill óstöðugleiki. Færustu vísindamenn á sviði hagmála hafa komist að því með rannsóknum að hún sé í sjálfu sér uppspretta mikils óstöðugleika þannig að ég er sammála hv. þingmanni um að til framtíðar verður mjög erfitt fyrir okkur að halda samkeppnishæfni. Við getum ekki notað hana nema hún sé í verðtryggðu formi og þar að auki hefur hún þann djöful að draga sem eru gjaldeyrishöftin. Ég er þeirrar skoðunar að það verði ekki nokkur vegur um langa hríð að losa okkur við gjaldeyrishöftin, jafnvel þó að þau muni heita eitthvað annað.

Hitt er svo alveg rétt skilið hjá hv. þingmanni að það er sérstakur kafli um myntsamstarfið sem við munum semja um við Evrópusambandið. Á næstu dögum, jafnvel í þessari viku, munu liggja fyrir drög að samningsafstöðu sem verður innan tíðar rædd í aðalsamninganefndinni. Hv. þingmaður hefur lesið meirihlutaálitið alveg rétt. Þar segir bókstaflega að stefnt sé að því að taka upp evru og ég geri ráð fyrir því að í samningsafstöðunni komi það fram að Íslendingar sæki eftir því að komast í ERM II eins fljótt og auðið er. Það er réttur skilningur hjá hv. þingmanni að þá kemst krónan í skjól. Eitt af því sem við munum þurfa að semja um við Evrópusambandið er samvinna og liðsinni og aðstoð við að aflétta gjaldeyrishöftum. Það er forsenda þess að við getum gengið í ERM II. Þá er krónan sem sagt komin í það skjól að búið er að aflétta gjaldeyrishöftum, búið að aflétta verðtryggingu, ekki verður þörf á henni, og þar heldur Seðlabanki Evrópu krónunni (Forseti hringir.) innan ákveðinna vikmarka sem ríkin skilgreina síðan mörg hver þrengra. Þetta er því réttur skilningur hjá hv. þingmanni og þetta væri hægt að gera fyrir mitt næsta kjörtímabil. (Gripið fram í: Mitt?) (VigH: Mitt næsta kjörtímabil? Af hverju er verið að hafa gjaldeyrishöftin til 2015?)