140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur lána og nauðungarsölur.

[13:57]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, flutti Alþingi munnlega skýrslu um dóm Hæstaréttar um gjaldeyrislánin á fimmtudaginn í síðustu viku. Þar sagði hann meðal annars, með leyfi forseta:

„Lögin opnuðu í þriðja lagi rétt fólks til að sækja leiðréttingar þótt samningar væru fullefndir og kváðu á um að fyrningarfrestir giltu ekki þannig að unnt væri að taka upp gjaldþrot og fjárnám á grundvelli samninganna. Lögin fólu í sér verulegar réttarbætur til þeirra sem hér áttu í hlut, einfölduðu stórkostlega úrvinnslu þessara mála og færðu mönnum umtalsverð réttindi sem ekki var ljóst að þeir hefðu á þeim tíma.“

Hér er ráðherrann væntanlega að vísa til ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 151/2010 þar sem segir að skuldara sé heimilt að óska eftir endurupptöku fullnustugerða, hafi slíkar gerðir farið fram á grundvelli lánasamninga sem höfðu að geyma ólögmæt ákvæði um gengistryggingu. Heimildir til endurupptökunnar samkvæmt þessu ákvæði falla niður að liðnum níu mánuðum frá gildistöku laganna. Lögin tóku gildi 29. desember 2010 og heimildin féll því niður 29. september 2011.

Það fannst mér mjög athyglisvert. Ég hafði heyrt af einu dæmi þar sem reynt hafði á þetta og ég vissi að þar hafði endurupptaka ekki fengist heldur verið hafnað. Ég fór að skoða þetta betur og komst að því að reynt hefur á þetta að minnsta kosti þrisvar sinnum. Alltaf hafa dómstólar, í öll þessi þrjú skipti, hafnað því að ákvæðið eigi við um nauðungarsölur þrátt fyrir að nauðungarsölur séu ein tegund fullnustugerða.

Mig langaði að benda á það og spyrja ráðherrann hvort hann sé ekki sammála mér um að framlengja þurfi þessa heimild þannig að hún sé í gildi og orða ákvæðið þannig að ekki sé hægt að sniðganga það.