140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur lána og nauðungarsölur.

[14:02]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur ákveðna þætti þessa máls á sinni könnu og er í forustu fyrir skoðun á tilteknum þáttum þeirra mála. Það er gert í samráði við fleiri ráðuneyti eðli málsins samkvæmt, eins og innanríkisráðuneyti vegna þess hluta sem á þess verksviði er, og fjármálaráðuneytið og forsætisráðuneytið. Sömuleiðis er búið að byggja upp virkt samráð við eftirlitsstofnanirnar, Fjármálaeftirlitið og Samtök fjármálafyrirtækja. Samtök fjármálafyrirtækja hafa óskað eftir undanþágu frá Samkeppniseftirlitinu til að geta skoðað sameiginlega tiltekin viðbrögð í þessu máli og Fjármálaeftirlitið beinir nú erindi til allra fjármálastofnana um áhrif þessa dóms á þau þannig að reynt er að tryggja að þessir aðilar geti borið sig saman um úrvinnsluna. Hefur nú verið byggður upp virkur samráðsvettvangur til þess. Hann er undir forustu skrifstofustjóra í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu.