140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

hjúkrunarrými og lyfjakostnaður.

[14:08]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar en spurningin er samt enn þessi: Er ráðuneytið að fara yfir þetta mál í kjölfar umræddrar greinar? Það þýðir ekki að skjóta sendiboðann. Það er verið að veita okkur upplýsingar í þessari grein um að þetta sé þróun sem sé í gangi. Er siðleysið ekki okkar í þinginu ef við skerum svo harkalega niður að þetta sé það eina sem forstöðumenn sjá fram á að geta gert? Er það ekki siðleysi hjá þinginu að taka slíkar ákvarðanir?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra: Hvaða heimili eru með yfir 500 vistmenn? Ég hélt að Hrafnista væri stærst með 250 hjúkrunarrými. Það væri þá gott að leiðrétta þann misskilning minn ef svo er.

Ég verð að lýsa mig algjörlega ósammála því sem kom fram í viðtali við hæstv. ráðherra í Morgunblaðinu í gær að það sé eitthvað betra að stofnun með tíu rými taki ákvörðun á þessum (Forseti hringir.) forsendum. Það hlýtur að vera alveg jafnsiðlaust að mati ráðherrans hvort sem stofnunin er stór eða lítil. Ég held að vandinn sé hér innan húss, að búa forstöðumönnum (Forseti hringir.) þetta starfsumhverfi.