140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:11]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fyrir að koma með þessa umræðu inn í þingið.

Þegar við ræðum starfsumhverfi sjávarútvegsins erum við að ræða umhverfi okkar helstu atvinnugreinar, undirstöðuatvinnugreinar, og starfsumhverfi sjávarútvegsins hefur afleidd áhrif víða í samfélagið. Ef umhverfið er erfitt hefur það neikvæðar afleiðingar og öfugt ef það er jákvætt. Starfsumhverfið ræðst af mörgum þáttum, þar á meðal aðstæðum á mörkuðum og því umhverfi sem stjórnvöld skapa hverju sinni.

Umræðan um sjávarútveginn er oft nokkuð einhæf og mikilvægt að heildarmyndin sé rædd og nokkrar staðreyndir hafðar í huga. Má þar nefna að íslenskur sjávarútvegur nýtur engra ríkisstyrkja en mörg samkeppnislönd okkar styrkja sinn sjávarútveg. Þá greiðir sjávarútvegurinn skatta og gjöld eins og allar aðrar atvinnugreinar en umræðan virðist oft vera þannig að greinin sé skattlaus.

Á nýafstöðnu viðskiptaþingi tók Þorsteinn Már Baldvinsson dæmi af 10 þús. tonna veiðum og vinnslu á makríl um borð í skipinu Vilhelmi Þorsteinssyni EA. Aflaverðmæti var 2,1 milljarður, af því voru greiddir skattar og gjöld upp á 580 millj. kr. Við þetta bætist svo aðkeypt þjónusta o.fl. sem einnig skilar sköttum og gjöldum hjá þeim félögum sem verslað er við.

Nýverið var kynnt skýrsla um sjávarklasann á Íslandi. Skýrslan dregur fram margt af því sem mörg okkar sem tengjumst sjávarbyggðunum óbeint eða beint þekkjum vel. Við höfum bent á að það sé hluti af verðmætasköpun í sjávarútvegi að vera sjómaður, flutningabílstjóri, fiskverkamaður, stálsmiður, eftirlitsaðili, rafvirki, verslunarmaður o.s.frv. Allir þessir aðilar geta verið á einhvern hátt hluti af sjávarklasanum. Þannig hefur starfsumhverfi sjávarklasans bein áhrif á þúsundir Íslendinga.

Sé litið til afkomu greinarinnar hefur hún verið sérstaklega góð undanfarin tvö ár, því er ekki að neita. Ræðst það að mestu af lágu gengi og auknum verðmætum, m.a. af góðum makrílafla. Á móti hafa ýmsir kostnaðarliðir hækkað mjög og skiptir þar olíuverð mestu. Staðan hefur ekki alltaf verið góð eins og þegar gengi krónunnar var í hæstum hæðum en þá varð greinin öll af tekjum.

Sjávarklasinn á Íslandi hefur alla burði til að vaxa og dafna og skapa enn meiri verðmæti fyrir þjóðina án þess að þurfa styrki frá ríkisvaldinu líkt og samkeppnisaðilarnir. En til þess þarf starfsumhverfi klasans alls að vera þannig að það hvetji til fjárfestingar og framþróunar. Við hljótum því að spyrja hvort stjórnvöld séu að stuðla að þannig starfsumhverfi. Skoðun mín og margra annarra er sú að svo sé ekki. Þar skiptir mestu algjör óvissa um hvernig staðið verði að grunninum að sjávarklasanum, þ.e. veiðunum.

Ríkisstjórnin hefur nú í þrjú ár talað fyrir breytingum sem reynst hafa annaðhvort óframkvæmanlegar eða fengið falleinkunn hjá þeim sem best til þekkja. Ríkisstjórnin talar um sátt en slær svo á sáttarhöndina þegar hún er rétt fram. Ég fullyrði að sjaldan eða aldrei hefur verið annað eins tækifæri til að ná fram breytingum í sátt við sem flesta og nú. En í fyrsta lagi tala sumir ráðherrar ríkisstjórnarinnar um grunnatvinnugreinina líkt og hún sé nánast til óþurftar og þá má spyrja sig hvort slík ummæli mundu líðast annars staðar um höfuðatvinnugreinar. Það er líkt og ef forsætisráðherra Spánar mundi tala þannig um ferðaþjónustuna þar að í henni væru eingöngu svindlarar og svikarar.

Í ár er verið að skattleggja sjávarútveginn í veiðigjaldinu um 4,5 milljarða kr. Þessir peningar hefðu að öllum líkindum að mestu runnið til fjárfestinga eða framþróunar í greininni. Þá er kolefnisskatturinn, svo minnst sé á hann, og síðast en ekki síst er hin mikla óvissa sem ríkir um framtíð veiða og vinnslu.

Hvernig gengi aðilum í ferðaþjónustu ef ekki lægi fyrir hvaða flugfélög mundu fljúga til landsins eða fá að lenda? Hvernig væri umhverfi netþjónabúa ef það vofði alltaf yfir að skattleggja sérstaklega nettengingar til og frá landinu? Slíkt mundi ekki ganga þar sem útilokað væri að gera áætlanir um tekjur og gjöld.

Sjávarklasinn þarf að takast á við óvissu í náttúrunni. Þar erum við með vísindamenn sem reyna að eyða þeirri óvissu en pólitísku óvissunni verða stjórnmálamenn að eyða. Nú stendur þessi klasi frammi fyrir því hvort hann muni standa jafnfætis keppinautum okkar á öllum þeim sviðum sem undir klasann heyra. Þar verðum við að eyða óvissu, það er ekkert annað í boði.

Samkvæmt nýrri skýrslu um sjávarklasann er framlag hans til landsframleiðslu í kringum 26%, varlega áætlað. Þessi grunnatvinnugrein skapar því stærstan hluta útflutningstekna okkar. Það getur verið góð og björt framtíð í sjávarklasanum og þau framtíðarverkefni liggja ekki síst í afleiddum greinum tengdum veiðum og vinnslu, tengdum klasanum í jaðrinum þar sem hátæknin er. Og munið það, frú forseti, ef hægt er að koma því á framfæri, að íslenskur sjávarútvegur er vitanlega ekkert annað en hátækniiðnaður. En það verður að eyða þessari óvissu, óvissunni um hvernig sjávarútvegurinn verður í framtíðinni verður að eyða. Tækifærin hafa verið til staðar en þau hafa ekki verið nýtt.

Virðulegi forseti. Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þarf að hafa það verkefni með höndum að tala upp sjávarútvegsklasann og auka almennan skilning landsmanna á atvinnugreininni í heild.