140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:17]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um starfsumhverfi sjávarútvegsins. Það er gagnlegt að fara yfir það og ræða út frá því sem er marktækastur mælikvarði á stöðuna, þ.e. afkomu greinarinnar og hvernig hún hefur spjarað sig þessi árin.

Auðvitað var sjávarútvegurinn eins og aðrar greinar stórskuldugur og verulega laskaður eftir hrunið en hann hefur síðan satt best að segja rétt ævintýralega hratt úr kútnum. Sem betur fer gildir það almennt um útflutnings- og samkeppnisgreinar okkar, þær hafa staðið sig vel. Þær eru mótorinn sem er í raun að draga hagkerfið upp úr efnahagslægðinni og núna er mikil verðmætasköpun, mikil framlegð og gerjun í þessum greinum; sjávarútvegi, ferðaþjónustu, ýmsum útflutningsgreinum á tæknisviði, skapandi greinum og landbúnaðinum og matvælaiðnaðinum, sem er vaxandi útflutningsatvinnugrein. Hafi menn efast eitthvað um að sjávarútvegurinn væri á siglingu þarf ekki annað en skoða endanlegar tölur fyrir árið 2010 sem komu frá Hagstofunni á dögunum og þjóðhagsspár Hagstofunnar þar sem sjávarútvegurinn kemur auðvitað mjög við sögu. Kraftmikil aukning í útflutningi þar er ein ástæða þess að Hagstofan hefur hækkað hagvaxtarspár sínar í nokkur skipti fyrir árið 2011 síðastliðið ár. Sama gildir um Seðlabankann. Það sem hefur aðallega leitt til að hann hefur hækkað spár sínar er meiri kraftur í útflutningsstarfseminni en menn sáu fyrir, sem gerir að verkum að jafnvel er reiknað með því að hagvöxturinn hafi orðið um 3,5% á síðasta ári eða upp undir prósentustigi meiri en spáð var lengi framan af.

Samantekt Hagstofunnar um veiðar og vinnslu fyrir árið 2010 staðfestir að umsvif í greininni hafa vaxið verulega. Þannig hefur nýlega komið fram, miðað við bráðabirgðatölur Hagstofunnar, að útflutningsverðmæti sjávarafurða á árinu 2011 hafi aukist um 14,7% frá fyrra ári. Þar fór saman gott verð á mörkuðum, hagstætt gengi og góð veiði á nokkrum mikilvægum fiskstofnum, ekki síst makríl.

Afkoma sjávarútvegsins í heild var mjög góð á árinu 2010. Það vitum við nú og flest bendir til að hún hafi sömuleiðis verið það á síðasta ári og þessu. Auðvitað er það mismunandi eftir greinum og milli fyrirtækja eins og gengur en í heildina tekið er afkoman afar góð í sögulegu samhengi, framlegð upp undir 30% af tekjum. Milliuppgjör sjávarútvegsfyrirtækja á miðju síðasta ári, þau sem þegar liggja fyrir, vísa til hins sama og ef eitthvað er má ætla að afkoman hafi verið enn betri á árinu 2011 en á árinu 2010. Framlegðin á árinu 2010 var um 60 milljarðar kr. Það má því ætla að hún hafi nálgast 70 milljarða á síðasta ári og með sama áframhaldi styrkir hvert slíkt ár stöðu greinarinnar gríðarlega. Þetta kemur auðvitað til af því að verð er hátt á mörkuðum. Almennt er staða fiskstofnanna nokkuð góð og að styrkjast. Við veiðum 17 þús. tonnum meira af þorski í ár en á fyrra fiskveiðiári og við höfum fengið mjög góða makrílvertíð og núna loðnuvertíð sem gæti orðið eitt mesta ævintýrið sem gerst hefur lengi. Ástæða er til að ætla að verðmæti loðnuvertíðarinnar nú ef vel gengur verði á milli tvöfalt og tvö- og hálffalt meira en það var fyrir tveimur árum.

Rétt til að nefna eiginfjárstöðu sjávarútvegsins þá var höfuðstóll hans öfugur í lok ársins 2008 og neikvætt eigið fé nam um 60 milljörðum kr. Það var komið upp fyrir strikið og orðið jákvætt um 27 milljarða árið 2009 og tæpa 60 milljarða í árslok 2010. Með sama áframhaldi og einföldum framreikningi má reikna með að eigið fé hafi náð um 100 milljörðum í lok síðasta árs og stefni í um 140 milljarða í lok þessa árs ef vel gengur. Þá hefur hagur sjávarútvegsins að þessu leyti batnað um 200 milljarða, mælt í auknu eigin fé á milli áranna 2008 og 2012. Með öðrum orðum, sjávarútvegurinn hefur þá nokkurn veginn endurheimt fyrri fjárhagslegan styrk sinn eins og hann var fyrir kreppu.

Ég er þar af leiðandi bjartsýnn fyrir hönd íslensks sjávarútvegs og hann á mikil sóknarfæri. Í honum hefur byggst upp mikil fjárfestingargeta og fjárfestingar eru teknar að aukast í íslenskum sjávarútvegi. Þess sjáum við til dæmis stað í kaupum á ÚA, í fjárfestingum HB Granda á Vopnafirði, í kaupum á nýju skipi til Norðfjarðar o.s.frv.

Ég tel að það þurfi að fara yfir markaðsmál sjávarútvegsins í samráði við greinina og við þurfum að gæta okkar að sitja ekki eftir þar í samkeppni til dæmis við Norðmenn sem setja núna stóraukið fé í markaðsaðgerðir á sviði sjávarútvegsins með gjaldtöku á greinina (Forseti hringir.) í sameiginlegan sjóð. Við eigum því að huga að slíkum hlutum, ekki síst vegna þeirra breytinga sem hafa orðið í sölumálum okkar, (Forseti hringir.) en það þarf að hlúa að málum greinarinnar í heild og menn mega ekki gleyma sér bara í umræðum um stjórn fiskveiða.