140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:25]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Almenn starfsskilyrði og framtíðarsýn í málefnum sjávarútvegsins velta ekki síst á því hvernig til tekst með að setja ásættanlegar leikreglur um úthlutun aflaheimilda sem tryggja atvinnufrelsi, nýliðun og jafnræði innan sjávarútvegsins. Á þetta hefur skort frá því að forréttindakerfi var komið á fyrir þremur áratugum sem skipti okkar dýrmætu fiskveiðiauðlind milli útvalinna aðila á grundvelli þriggja ára veiðireynslu, þ.e. þegar gjafakvótanum var skipt milli útgerða sem síðan hafa hagnast jafnvel betur á því að leigja hann frá sér en veiða. Þar með myndaðist aðalsveldi nokkurra sterkra aðila sem hafa ráð og rekstur annarra útgerða, jafnvel heilla byggðarlaga í hendi sinni.

Slíkt forréttindaskipulag viðgekkst í bændasamfélagi fyrri alda og á lénsveldistímanum í Evrópu en það samræmist ekki nútímasjónarmiðum um frelsi og jöfnuð innan velferðarsamfélaga. Mikilvægt er því að breyta þessu óréttláta kerfi og afnema forgang hinna fáu að fiskveiðiauðlindinni, gefa kvótalausum og kvótalitlum útgerðum í dreifðum byggðum kost á að nýta sér gæði hafsins og byggja upp atvinnu í smærri byggðarlögum, þ.e. að einyrkinn og smábátaútgerðin eigi sinn rétt við hliðina á stórútgerðinni og samfélagslegar þarfir, atvinnusköpun, byggðasjónarmið og fjölbreytni atvinnulífs geti náð fram að ganga.

Sjávarútvegur dagsins í dag sýnir betri afkomu en nokkru sinni. Við sjáum það á gríðarstórum fjárfestingum sem gerðar hafa verið í viðskiptum með sjávarútvegsfyrirtæki síðastliðið ár. Við sjáum það á nýjum og öflugum fiskiskipum sem keypt hafa verið undanfarin missiri og stórendurbættum vinnslubúnaði víða. Þessi atvinnugrein er ekki á vonarvöl og heimsendaspár þeirra sem ganga erinda hagsmunaaðila hér á þingi sem víðar, eiga því engan rétt á sér. Fyrirhugaðar breytingar á kerfinu munu vonandi verða til þess að bæta rekstrarafkomu (Forseti hringir.) og rekstrarumhverfi þessarar atvinnugreinar enn betur en orðið er. (Gripið fram í.)