140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Starfsskilyrði sjávarútvegs á Íslandi eru með miklum ágætum eins og komið hefur fram við umræðuna. Það er fagnaðarefni að ár eftir ár er hreinn hagnaður í sjávarútvegi eftir árgreiðsluaðferð Hagstofunnar á fimmta tug milljarða króna, sem nemur nær hálfri milljón á hvert heimili í landinu. En það er líka tímabært að sjávarútvegurinn skili almenningi eðlilegri hlutdeild í þeim arði, ekki síst nú þegar róðurinn hefur þyngst í lífsbaráttunni hjá þorra almennings í landinu.

Við erum svo gæfusamir, Íslendingar, að búa að ríkulegum auðlindum í sjávarútvegi og hér eru dregin að landi sem nemur 10 kílóum af fiski fyrir hvern íbúa í landinu á hverjum einasta degi allan ársins hring. Það er eðlilegt að þjóðin njóti nokkurs arðs af þeirri auðlind, a.m.k. meira en sem nemur 1 kr. á hvert kíló eins og hefur verið á köflum. Augljóslega á fólk tilkall til þess.

Starfsskilyrði sjávarútvegsins eru almennt góð en innan hans eru þó þættir sem sannarlega þarf að taka á. Það er auðvitað hróplegt kerfi þar sem hluti útvegsbænda er leiguliðar hinna útvegsbændanna. Það er líka mikilvægt að eyða þeirri óvissu sem hægt er að eyða í greininni og að Landssamband íslenskra útvegsmanna láti af því að hafna eðlilegri sátt um sanngjarna skiptingu arðsins af auðlindinni. Við verðum um leið að muna að sjávarútvegur á Íslandi mun eðli málsins samkvæmt alltaf búa við hina náttúrulegu óvissu sem fylgir því að byggja á veiðum (Forseti hringir.) úr óvissri náttúru.