140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

starfsumhverfi sjávarútvegsins.

[14:46]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Oftast er það þannig að allir þurfa að leggja sitt af mörkum til sáttagerðar og það hlýtur þá að gilda líka um hv. málshefjanda þegar hann í umræðum um sjávarútvegsmál tjáir sig um viðhorf annarra í þessum efnum.

Það er rétt sem hér hefur komið fram að sjávarútvegurinn á ekki og má ekki frekar en aðrar útflutnings- og samkeppnisgreinar ganga út frá því að núverandi lágt raungengisstig haldist. Mjög mikilvægt er að leggja áherslu á að við erum þar ekki að tala um frambúðarástand. Einnig er rétt að það bíður tiltekin uppsöfnuð fjárfestingarþörf í sjávarútveginum. Því er mikilvægt að hann styrkist, ekki síst í að endurnýja skipastólinn, en það er að sjálfsögðu ekki þannig að það sé bara gengisstigið sem hafi ráðið afkomu sjávarútvegsins undanfarin missiri. Þar hjálpar til góðæri á mörkuðum. Þar hjálpa til ágætisaflabrögð í mjög mörgum stofnum. Kostnaður á sóknareiningu hefur farið lækkandi. Þökk sé þeim fiskverndaraðgerðum sem gripið hefur verið til og síðast en ekki síst hefur orðið mikil verðmætisaukning úr óbreyttu magni, t.d. í þróaðri landvinnslu.

Ég vil aftur nefna það sem ég hafði ekki tíma til að tala um áðan um markaðsmálin. Ég tel að mikilvægt sé að ræða þau og skoða í nýju samhengi. Aðstæður okkar þar eru breyttar. Við erum ekki lengur með þau stóru og öflugu sölusamtök sem mikið til sáu um þá hluti áður og ég tel það vera sameiginlegt viðfangsefni stjórnvalda og greinarinnar sem liti til dæmis til fordæmis þar sem stjórnvöld og ferðaþjónusta hafa með árangursríkum hætti unnið saman að undanförnu.

Svo koma menn hingað og segja að ríkisstjórnin hafi skapað óvissu í málefnum sjávarútvegsins. Hvaða óvissu bjó núverandi ríkisstjórn til í þessum málaflokki sem ekki var til staðar áður? Voru engar deilur? Var enginn ágreiningur? Var engin óvissa? Jú. Þetta er óskaplega barnalegur málflutningur vegna þess að nærri 28 ára saga kvótakerfisins er mörkuð deilum og reglubundið á fjögurra ára fresti hafa málefni þeirrar greinar komið upp á spil. (Forseti hringir.) Þess vegna heldur óvissan áfram ef við náum ekki einhverri sæmilega heildstæðri niðurstöðu og farsælli lausn í þessum efnum.