140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:48]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Það mál sem nú er að koma á dagskrá er með ólíkindum á margan hátt. Það eru — án þess að ég fari út í efnislega umræðu undir þessum lið — tvö atriði sem ég vil gera athugasemdir við frá formhlið séð og leita eftir afstöðu hæstv. forseta til. Annars vegar er um það að ræða að hér er á dagskrá tillaga frá hv. þm. Þór Saari og fleirum. Með breytingartillögu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem er í raun og veru svo mikil breyting að það verður að mínu mati að líta svo á að um nýja tillögu sé að ræða, ekki breytingartillögu. Textinn er algerlega skrifaður upp á nýtt og það ferli sem gert er ráð fyrir í breytingartillögunni er á margan hátt frábrugðið því sem gert var ráð fyrir í upphaflegu tillögunni.

Hitt atriðið sem ég verð að vekja athygli hæstv. forseta á er að ekki fylgir kostnaðarmat með breytingartillögu í nefndaráliti meiri hlutans en þó er það svo samkvæmt þingsköpum, 2. mgr. 30. gr., að slíkt kostnaðarmat skal leggja fram við slíkar aðstæður.