140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það skal tekið fram í upphafi að ég sit í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og tek undir hvert einasta orð sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan því að við höfum svo sannarlega reynt að koma vitinu fyrir meiri hlutann í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á þessum forsendum.

Ég vil einnig vísa til þeirra orða sem hv. þm. Þór Saari fór með áðan. Hér er um allt annað mál að ræða, allt annað mál. Samkvæmt tillögunni átti til dæmis að kalla til stjórnlaganefnd sem var skipuð sjö mönnum. Þeir aðilar hvítþvoðu hendur sínar og sögðu: Við höfum lokið störfum. Það kemur ekki til greina að kalla okkur til starfa á ný. Eins er með stjórnlagaráðið. Samkvæmt lögum hefur stjórnlagaráð lokið störfum. En það eru einhverjir einstaklingar þar inni sem vilja koma aftur til starfa við hlið alþingismanna í málinu. Auðvitað er fullt af fólki í samfélaginu sem vill koma og starfa við hlið þingmanna en svo er ekki í þessu máli. Og þeirri afsökun forseta, (Forseti hringir.) frú forseti, að um sama heiti á tillögunni sé að ræða og það dugi til að hún sé þingtæk vísa ég á bug því að ekki er nóg að heitið eitt standi eftir.