140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[14:59]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er reyndar sorglegt að við skulum vera í því ferli sem málið er komið í með breytingar á stjórnarskrá Íslands, að við skulum vera að upplifa þvílíkt klúður sem þetta mál er búið að vera í frá upphafi og að Alþingi skuli ekki bera gæfu til að staldra við og segja að við getum ekki vaðið áfram í þeirri blindni sem vaðið er.

Frú forseti. Ég er sannfærður um að á endanum mun þetta ekki takast. Okkur mun ekki takast að breyta stjórnarskránni með þeirri aðferðafræði sem hér er verið að leggja upp með því að það er allt vont og allt ómögulegt við þessa aðferðafræði.

Við hljótum að þurfa að segja, frú forseti, talandi um virðingu Alþingis, að Alþingi setji mikið niður við það hvernig við höfum haldið á þessu máli í þinginu og hvernig það virðist eiga að fara í gegnum þingið. Það mun að sjálfsögðu kalla á frekari ófrið um stjórnarskrána, það er alveg ljóst þegar unnið er með þessum hætti.