140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég verð í upphafi að nota fyrstu sekúndurnar til að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir það hvað hann er alltaf einstaklega vel að sér í málefnum Framsóknarflokksins en Framsóknarflokkurinn virðist vera hans eina áhugamál. (Gripið fram í.)

Ég vil minna á í þessari umræðu að raunverulega er það bara fyrirsögn þingsályktunartillögunnar sem kemur óbreytt inn á milli fyrri og síðari umr. og það voru til dæmis ekki kallaðir fyrir umsagnaraðilar að þeirri breyttu tillögu sem liggur hér fyrir. Við erum með splunkunýja tillögu í höndunum sem hefði þurft að leita umsagna um hjá aðilum úti í samfélaginu, því að eins og ég sagði áðan hvítþvoði sjö manna nefndin hendur sínar og vildi ekki koma að þessari vinnu aftur því að hún hefði lokið störfum samkvæmt lögum, á sama hátt og stjórnlagaráðið sem nú á að vísa málinu til.

Kostnaðarmatið er annað atriði og það er algjörlega óásættanlegt, eins og sagt var hér í þingræðu, að það komi ekki fram í (Forseti hringir.) þingsályktunartillögunni sjálfri heldur framsöguræðu hjá framsögumanni. Þetta eru vinnubrögð, frú forseti, sem ég hélt að við hefðum ætlað að afleggja eftir hrunið.