140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

breytingartillaga og kostnaðarmat við 6. mál.

[15:05]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna viðbrögðum hv. þm. Péturs Blöndals við þeirri umræðu sem hér hefur farið fram síðustu mínúturnar vegna þess að hann tekur þó mark á því sem hér er lagt inn í umræðuna, gagnstætt ýmsu því sem hefur verið sagt á undan og vekur í raun og veru enga furðu vegna þess að það sannaðist í máli hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar sem sagði: Þetta mun ekki takast. Það mun ekki takast að búa til nýja stjórnarskrá vegna þess að hér eru þingmenn í stórum hópum sem ætla að bregða fæti fyrir það með öllum ráðum. (Gripið fram í.)

Í þeirri tillögu sem hér er verið að flytja er gengið fram með þau lykilmarkmið sem komu fram í upphaflegri tillögu Þórs Saaris og félaga um að málið færi sem fyrst á dagskrá þingsins, því yrði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, haft yrði samráð við stjórnlagaráð um málið og síðan yrði það sett til þjóðaratkvæðis. Öll þessi atriði eru í þeirri tillögu sem hér er til afgreiðslu. (Gripið fram í.)

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir enn á hljóð í sal.)