140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:25]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræðumaðurinn komst að kjarna málsins í lok andsvarsins þegar hún sagði að Alþingi og þingmenn breyttu stjórnarskránni. Það er hárrétt. Það er þess vegna sem þessi útúrdúr hér, að færa skýrslu stjórnlagaráðs heim til stjórnlagaráðs á ný, er algjörlega út úr öllu korti. Það veit hv. þingmaður. Og þó að hún tali um að við höfum ólíkan ræðustíl verð ég að benda á það hér í upphafi að það vantar helminginn af ræðunni hjá framsögumanninum, það vantar þær tillögur sem á að beina til stjórnlagaráðs sem hefur lokið störfum. Þingmaðurinn kynnti það í ræðu sinni að það mundi koma fram seinna í dag hvaða atriðum ætti að beina til stjórnlagaráðs.

Þessu með Lagastofnun Háskóla Íslands og því krataorði að gera ætti álagspróf á skýrslunni vísa ég einnig til föðurhúsanna. Lagastofnun Háskóla Íslands sér, eins og ég sem hef starfað í minni hlutanum, (Forseti hringir.) að það vantar svo mikið upp á samræminguna (Forseti hringir.) í skýrsluna á milli lagagreinanna að (Forseti hringir.) skýrslan er ótæk til þings, eins og sérfræðingar hafa sagt.