140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að byrja á því að leiðrétta hv. þm. Þór Saari og hæstv. utanríkisráðherra sem fór fyrr í dag með ósannindi í ræðustól. Framsóknarflokkurinn lagði ekki til að stjórnlagaráð yrði sett á fót, hann lagði til að kosið yrði til stjórnlagaþings, þetta eru algjörlega óskyld fyrirbæri. Það að stjórnlagaráð hafi á endanum orðið til hefur ekkert að gera með það sem Framsóknarflokkurinn lagði af stað með til að það liggi algjörlega á tæru, það á ekkert skylt við stjórnlagaþing.

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann og formann nefndarinnar að því hvort það hlutverk sem RÚV á að hafa í þessum málum öllum, þetta kynningarhlutverk — hefur það verið rætt …

(Forseti (RR): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Hefur það verið rætt við Ríkisútvarpið og hefur Ríkisútvarpið samþykkt að standa að þeirri kynningu sem er nefnd í tillögunni?

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort spurningar sem þingmaðurinn las hér upp áðan voru bornar upp og samþykktar í nefndinni. (Gripið fram í: Nei.)

Við hljótum að velta því fyrir okkur þegar við ræðum stjórnarskrána hvort farsælla sé að fara í breytingar á henni með þeim bægslagangi sem nú er í gangi eða, eins og ég hef nefnt hér áður í ræðum mínum, hvort taka eigi einstaka kafla og reyna að ná einhvers konar sátt um þá. Ég lýsi því til dæmis enn og aftur yfir fyrir mig persónulega að ég væri til í að sökkva okkur ofan í kaflann er lýtur að auðlindunum, taka hann og skýra enn frekar og reyna að koma þeim stóra og mikla áfanga í höfn með einhverjum hætti. En það að vera með alla stjórnarskrána undir eins og hér er lagt upp með mun ekki ganga upp. Það mun koma í hausinn á okkur, því miður. Ég vara við því. Ég hefði haldið að það væri betra að staldra við og gefa sér frekar betri tíma og taka út einstaka kafla og ná sátt um þá af því að þetta hefur klúðrast. Allt ferlið er tómt klúður.

Það eru fyrst og fremst þessar spurningar sem mig langaði að fá svör við, þ.e. varðandi RÚV og hinar spurningarnar.