140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Eins og umræðan í dag hefur að einhverju leyti borið með sér er þetta mál og ferill þess allur með ólíkindum. Ég ætla ekki að tala um fortíðina að þessu leyti heldur þá tillögu sem hér liggur fyrir en verð þó að geta þess að þær æfingar og sú tilraunastarfsemi sem staðið hefur yfir varðandi stjórnarskrárbreytingar nú í nærfellt þrjú ár verður að mínu mati einhvers konar undarleg neðanmálsgrein í stjórnskipunarsögu Íslands (VigH: Já.) því að á þeirri vegferð allri birtist mikil tilhneiging meiri hlutans á þingi til að fara allt aðrar leiðir varðandi breytingar á stjórnarskránni en stjórnarskráin sjálf kveður á um. Ég læt fortíðina að öðru leyti liggja á milli hluta. Komið hefur fram af hálfu okkar sjálfstæðismanna að við höfum gert athugasemdir við mjög marga þætti í þessu furðulega ferli, og til að taka af allan vafa um það leggjumst við gegn þeirri breytingartillögu sem liggur fyrir og þeirri tillögu sem hún á að heita breyting á. Ég verð þó að geta þess að gefnu tilefni, í ljósi umræðunnar hér áðan, að þótt ég hefði efasemdir á sínum tíma um tillögu hv. þm. Þórs Saaris og fleiri, sem fram kom við upphaf þings í október, að sú málsmeðferð sem þar er lýst er mun vandaðri en sú sem breytingartillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gerir ráð fyrir. Ég var ekki sáttur við tillögu hv. þm. Þórs Saaris en mér finnst hins vegar rétt að geta þess að hún er vandaðri en tillaga nefndarinnar. Ég bið hv. þingmenn að lesa saman annars vegar upprunalegu tillöguna og hins vegar þá tillögu sem hér liggur fyrir. Má þá hverjum manni vera ljóst að með öllum þeim annmörkum sem kunna að vera á upphaflegri tillögu Þórs Saaris er hún þó skárri en sú tillaga sem við fjöllum um í dag. Breytingartillagan frá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd virðist vera einhvers konar skemmri skírn, svo vægt sé til orða tekið, á þeirri útgáfu sem hv. þm. Þór Saari lagði upp með, mér liggur við að segja yfirborðsmálsmeðferð, frekar en sú málsmeðferð sem hv. þm. Þór Saari lagði upp með.

Ég bið hv. þingmenn að bera saman tillögurnar og velta fyrir sér hvort sú málsmeðferð sem gert er ráð fyrir í þessari tillögu leiði til jafnítarlegrar og -vandaðrar skoðunar og tillaga hv. þm. Þórs Saaris gerði þó ráð fyrir. Þótt ég ítreki enn og aftur að ég hafi efasemdir um þá leið gaf tillaga hv. þm. Þórs Saaris þó miklu betri forsendur fyrir vandaðri skoðun á málinu en sú sem lagt er upp með hér. Ég vek athygli á þessu og hvet hv. þingmenn og aðra sem á mig hlýða til velta fyrir sér hvort sú málsmeðferð sem við ræðum í dag — nú er ég bara að tala um málsmeðferðina — sé vönduð og líkleg til að skila árangri.

Í nefndaráliti okkar hv. þm. Péturs Blöndals lýsum við því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa frá því að þessar umræður hófust, og raunar töluvert lengur, lýst sig reiðubúna til að taka þátt í breytingum á stjórnarskránni. Á því hefur ekki leikið neinn vafi. Við höfum ávallt á öllum stigum máls lýst því yfir að við værum tilbúnir að vinna að breytingum á stjórnarskránni, þ.e. þeim atriðum stjórnarskrárinnar sem sæmileg sátt væri um að þörf væri á að breyta. (Gripið fram í: Jaá.) Já. Það sem kom hins vegar út úr því ferli sem meiri hlutinn á Alþingi lagði upp með voru breytingar á öllum greinum núgildandi stjórnarskrár, hverri einni og einustu. Ég hygg að hluti einstakra ákvæða hafi kannski fengið að standa en öllum greinunum er breytt. Það eru 79 ákvæði í núverandi stjórnarskrá, þeim var öllum breytt og við var bætt 26 nýjum. Það gerði stjórnlagaráð á fjórum mánuðum eins og lagt var upp með í ályktun sem meiri hluti Alþingis samþykkti þar sem stjórnlagaráðinu var veitt umboð til að vinna það verk að leggja tillögur fyrir Alþingi. Á borðinu eru núna 115 nýjar greinar stjórnarskrár sem samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar, ekki hver og ein heldur allar í heild, en svo eru tekin út einhver atriði, kannski fimm, heyrðist mér í nýjustu talningu hv. formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. (VBj: … talið upp… í nefndinni í gær.) Ja, þetta voru svipuð atriði en það var þó allt með (Gripið fram í.) fyrirvörum. (VBj: … sama …) Við höfum engan pappír um það, hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, en það rétt að vísað var til þess að meiri hlutinn hefði sérstakan áhuga á að skoða þarna nokkur atriði. Um þessi atriði á að greiða atkvæði samhliða heildarbreytingunum og enn á eftir að fara fram umræða í nefndinni um það, það á kannski eftir að koma fram, ég vona að það, hvort menn vilja beina fleiri atriðum til þessa nýendurvakta stjórnlagaráðs eða hvort menn vilja spyrja annarra spurninga í þjóðaratkvæðagreiðslunni í sumar. Það kemur væntanlega að því að við fáum einhverja tillögu um hvernig þessi þjóðaratkvæðagreiðsla á að vera, það er ekki í tillögunni nema bara í meginútlínum. Þetta er eiginlega þingsályktunartillaga um að flutt skuli þingsályktunartillaga þannig að vissulega á fleira eftir að gerast í málinu áður en efnt verður til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef aldrei séð áður í ályktun Alþingis að nefnd skuli flytja tillögu. Það kann að vera misminni hjá mér en það er kannski í anda annars sem uppi hefur verið í þessu máli.

Nóg um það. Áhersla okkar sjálfstæðismanna hefur verið sú að vinna að tilteknum breytingum á stjórnarskránni, afmörkuðum breytingum. Við höfum verið þeirrar skoðunar að stjórnarskráin í heild hafi reynst býsna vel en að hins vegar séu ákvæði þar sem þarfnist vissulega endurskoðunar. Við höfum verið tilbúnir að fara í þá vinnu. Við höfum hins vegar ekki verið ginnkeyptir fyrir hugmyndum um að skrifa stjórnarskrána frá A til Ö, upp á nýtt, breyta öllum greinunum, hverri einustu grein, og bæta við 26 nýjum greinum. Við höfum ekki verið þeirrar skoðunar, það skal viðurkennt. Það finnst mörgum íhaldssamt viðhorf og verður bara svo að vera. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að stjórnarskrá sé þess eðlis að hún eigi að breytast hægt og að vel yfirlögðu ráði og að óráðlegt sé að kollvarpa henni allri í einu vetfangi. Komið hefur fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að Norðmenn eru nú að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrár sinnar sem er að stofni til frá 1814 (Gripið fram í.) og eru Norðmenn ekki taldir búa við mjög slæma stöðu í mannréttindamálum, svo það sé tekið fram. Hvernig vinna þeir þá endurskoðun? Það er forvitnilegt að skoða það af því að hér er oft vitnað til norrænna þinga og norrænnar stjórnsýslu um það hvernig vanda beri til verka. Þeir hafa nú í þrjú ár verið að undirbúa mannréttindakaflann, bara mannréttindakaflann. Í þrjú ár. (Gripið fram í.) Kannski lýkur því verki á næsta ári, kannski á þarnæsta, en þeir gera sér grein fyrir því og eftir því sem ég best veit eru menn sammála um það í norska þinginu að svona breytingar þarfnist mikillar yfirlegu og að vanda þurfi til verka. Ég nefni þetta sem dæmi um hvernig þjóð sem við berum okkur oft saman við vinnur verk af þessu tagi þannig að ef ég er talinn íhaldssamur í sambandi við stjórnarskrárbreytingar þá er ég svo sem ekki einn um það heldur er það ríkjandi viðhorf víðast hvar á Vesturlöndum að íhaldssemi eigi að vera við lýði varðandi breytingar á stjórnarskrá. Stjórnarskrá er grundvallarlöggjöf sem öll önnur löggjöf byggist á og það getur haft alls konar afleiðingar að fara í breytingar á stjórnarskrá, að maður tali nú ekki um meiri háttar breytingar. Það kann að hafa alls konar afleiðingar og þegar menn gera breytingarnar verða menn að gera sér grein fyrir hvaða breytingar eiga eftir að koma fram, hvaða afleiðingar verða af þeim skrefum sem menn taka. Þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar, og við nefnum það í nefndaráliti okkar, að eðlilegast sé að þessi vinna sé á forræði þingsins en að leitað verði sérfræðiaðstoðar, faglegrar aðstoðar, við útfærslu. Þegar upp er staðið þarf alltaf að taka pólitískar ákvarðanir og þær verða ekki teknar annars staðar en á þinginu, en það þarf að útfæra tillögurnar með faglegum og fræðilegum hætti þannig að þær standist kröfur, þannig að ljóst sé hvaða afleiðingar breytingarnar hafa og að ekki sé verið að ana út í óvissuna með þeim.

Við tökum fram í nefndarálitinu, og er rétt að árétta það hér, að að sjálfsögðu á þingið að hlusta á og taka við tillögum úr ýmsum áttum. Komnar eru tillögur frá þessu stjórnlagaráði. Allt í lagi. Skoðum, vegum tillögurnar og metum þær málefnalega þær burt séð frá því hvaða skoðun maður hefur á því hvernig að þeim var staðið og hvaða ákvarðanir voru teknar á þingi, sem ég reyndar tel að séu hneyksli en látum það liggja á milli hluta. Fáum einhverja greiningu á því hvað felst í þeim, fáum einhverja greiningu á því hvaða afleiðingar þær hafa. Fáum einhverja greiningu á því hvort þar eru árekstrar milli einstakra ákvæða. Reynum að átta okkur aðeins á því hvað einstakar breytingar þarna þýða.

Ég veit að mörgum þykir ekkert skemmtilegt að hlýða á varnaðarorð af þessu tagi en staðreyndin er hins vegar sú að þegar gerðar eru breytingar á stjórnarskrá, jafnvel breytingar sem virðast lítils háttar, getur það haft töluvert mikil áhrif bæði á lagasetningu og dómaframkvæmd í framhaldinu. Höfum það í huga. Við erum ekki að tala um stjórnarskrá í sama andrúmslofti og með sömu vinnubrögðum og þegar menn samþykkja til dæmis ályktanir á landsfundum stjórnmálaflokka eða eitthvað þess háttar. Það er ekki þannig. Stjórnarskrá hefur lagagildi, stjórnarskrá hefur áhrif, bæði á eftirfarandi og afleidda lagasetningu og stjórnarskrá hefur grundvallaráhrif á dómaframkvæmd þannig að áður en menn samþykkja stjórnarskrárbreytingar þurfa menn að gera fleira en bara að finna orðalag sem hljómar vel. Menn þurfa að greina hvað í breytingunum felst og á þeim stað erum við ekki stödd núna með þetta mál. Við erum ekki komin svo langt.

Þetta vildi ég leggja áherslu á. Auk þess vil ég nefna atriði sem við erum með í nefndaráliti okkar, við hv. þm. Pétur Blöndal, sem varða tillöguna sem slíka sem hér liggur fyrir. Við erum með nokkra tölusetta liði í nefndarálitinu, með leyfi forseta:

„1. Stjórnlagaráð, sem skipað var af Alþingi á grundvelli ályktunar frá 24. mars 2011, lauk störfum í júlílok 2011 í samræmi við þá þingsályktun og hefur ekki starfað síðan. Verulegur vafi hlýtur að leika á um það hvort breytingartillaga meiri hlutans dugi til að veita því umboð að nýju eða endurvekja það, hvað þá“ — eins og við nefnum hér — „að heimilt sé að stofna til fjárhagslegra skuldbindinga“ — fyrir ríkissjóð eða Alþingi — „á þeim grundvelli.“

Um það bið ég hv. þingmenn að hugsa.

Í annan stað vekjum við athygli á því í nefndarálitinu, og það var vissulega skrifað áður en seinna andsvar hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur kom fram í umræðum áðan, að ekki er ljóst af breytingartillögunni hvert verkefni stjórnlagaráðsins, verði það endurvakið, á að vera á fyrirhuguðum fjögurra daga fundi í byrjun mars. Það er 21. febrúar í dag. Rætt er um að bera undir stjórnlagaráðið einhver álitaefni og við segjum í nefndarálitinu samkvæmt okkar bestu vitund þegar nefndarálitinu var skilað að enn liggi ekki fyrir með tæmandi hætti hvaða álitaefni verði borin undir stjórnlagaráðið.

Meiri hlutinn í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd gaf sér ekki tíma til að klára það eða hugmyndir eða tillögur um það áður en hann afgreiddi málið í síðustu viku. Í ljósi þess að það er svo óljóst hvað stjórnlagaráðið á að gera er líka óljóst hvort fjórir dagar dugi ráðinu til að takast á við einhver viðfangsefni. Ég hef ekki heyrt nein sérstök rök fyrir því að sú tímalengd hafi verið valin en það kann að vera að það skýrist eitthvað í umræðunum á eftir.

Eins og við hv. þm. Pétur Blöndal nefnum í nefndarálitinu hlýtur það að teljast vanvirðing við verkefnið sem er auðvitað, eins og við vitum og hefur verið frá upphafi, að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá eða breytta stjórnarskrá eða ný stjórnarskrárákvæði eða hvernig við orðum það.

Í þriðja lagi vildi ég nefna eitt og það varðar málsmeðferðina. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur ekki tekið saman yfirlit um athugasemdir og gagnrýnisatriði sem komið hafa fram við tillögur stjórnlagaráðs frá því síðasta sumar. Við getum þess í nefndarálitinu að fjallað hefur verið um tillögur stjórnlagaráðs á fjölmörgum fundum í nefndinni og fjölmargar athugasemdir hafa komið fram og gagnrýnisatriði hafa verið sett fram við nefndina, bæði munnlega og skriflega. Eins og við getum um í nefndarálitinu er óhætt að segja að þeir sérfróðu einstaklingar sem hafa tjáð sig við nefndina séu sammála um að tillögur stjórnlagaráðsins þarfnist verulegrar yfirlegu og breytinga áður en unnt er að líta á þær sem fullbúnar tillögur.

Við bendum á að útilokað sé að stjórnlagaráð geti á fjögurra daga fundi brugðist við öllum þeim athugasemdum sem fram hafa komið og endurbætt tillögurnar á fullnægjandi hátt. Í ljósi þess sjáum við ekki fram á annað en að það verði ófullgert skjal sem leggja eigi í dóm kjósenda í sumar með þeirri óvissu um framhald málsins sem því fylgir.

Eins og fram kom í andsvörum áðan var á fyrri stigum vinnunnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd stefnt að því að fá faglega greiningarvinnu varðandi tillögur stjórnlagaráðsins og var rætt um það í nefndinni að fá Lagastofnun Háskóla Íslands til að halda utan um þá vinnu. Eins og einnig hefur komið fram taldi Lagastofnun sig þurfa mjög mikinn tíma og talsverða fjármuni til að vinna það verk svo sómasamlegt væri. Það var alveg skýrt af hálfu Lagastofnunar og eins og fram kom í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur áðan var það viðhorf meiri hlutans að til þess væri ekki tími af því að meiri hlutinn var einhvern veginn búinn að binda sig við það fyrir fram að það yrði að vera þjóðaratkvæðagreiðsla í sumar samhliða forsetakosningum. Menn voru búnir að gefa sér það og þess vegna ræðst málsmeðferðin af þeim þáttum en ekki af einhverju sem tengist efni tillagnanna eða greiningu á þeim.

Við bendum líka á að fyrir utan heimsóknir gesta á fundi nefndarinnar hefur ekki farið fram nein umræða þar um tillögurnar. Við höfum átt samtöl við gesti um þessar tillögur, komið hefur fram gagnrýni frá gestum. Ég held að mér sé óhætt að segja að af sérfróðum aðilum sem komið hafa fyrir nefndina hafi þeir sem eru jákvæðastir talað um að í plagginu, niðurstöðum stjórnlagaráðs, væru margar góðar hugmyndir, ýmsar góðar tillögur, en skjalið væri ekki fullklárað, fullbúið, og það ætti eftir að taka ýmsum breytingum.

Miklu fleiri voru mun neikvæðari en þetta, bara þannig að því sé haldið til haga í þessari umræðu. Við höfum heyrt í fjölmörgum gestum en ég vildi nota tækifærið í þessari umræðu og segja að við höfum alls ekki tæmt þá gestalista sem hægt hefði verið að stilla upp varðandi þessi mál.

En látum það liggja milli hluta. Það hefur engin vinna farið fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að vinna úr þeim athugasemdum og ábendingum eða ræða þær sem fram hafa komið. Við höfum fengið gesti sem komið hafa og setið hjá okkur í hálftíma, klukkutíma kannski, og farið yfir sjónarmið sín en nefndin sjálf hefur ekkert farið í gegnum þær. Þar af leiðandi hefur nefndin ekki unnið þá vinnu að greina hvaða atriði það eru sem er þörf á að fá athugasemdir stjórnlagaráðs um, telji menn að það sé rétt leið yfir höfuð.

Meiri hlutinn kann að hafa gert það utan funda því að það er svo óþægilegt að ræða þessi mál á nefndarfundum. Það kann að vera, en það hefur ekki verið gert á vettvangi nefndarinnar.

Ég held að af þeim sökum, vegna þess að það vantar þetta yfirlit, það vantar þetta álagspróf á tillögum stjórnlagaráðs, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir talaði um áðan, það er ekki búið að fara yfir það eða að lista hvar vandamál kunna að vera fyrir hendi, að vinnan í framhaldinu verði líka ómarkviss. Ég óttast að hún verði ómarkvissari en ella, bæði það sem stjórnlagaráðið á að gera á þessum fjórum dögum í mars og að þjóðaratkvæðagreiðslan í sumar verði ómarkvissari en hún þarf að vera vegna þess að það liggur alveg fyrir að breyta þarf plagginu töluvert áður en frumvarp verður lagt fram á þingi, sem áætlað er að gera næsta haust. Það sem borið verður undir atkvæði í sumar er ekki fullmótað plagg, ekki fullmótaðar tillögur, heldur eitthvað sem á eftir að breytast. Þá geta menn velt því heilmikið fyrir sér í þessari stofnun hvernig túlka eigi hin og þessi úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þjóðaratkvæðagreiðslur, hvort sem þær eru ráðgefandi eða bindandi, fara yfirleitt fram um eitthvað sem er nokkurn veginn endanlegt, um einhverja tillögu. Ég veit ekki dæmi þess að menn fari með einhverja tillögu í þjóðaratkvæðagreiðslu og segi: Hér er tillagan, segið já eða nei, en ég áskil mér allan rétt til að breyta þessu hvernig sem er eftir á. Það er ekki þannig.

Hvernig verða niðurstöður slíkrar þjóðaratkvæðagreiðslu túlkaðar? Er það kannski svo, eins og fram hefur komið í umræðum í nefndinni, að þetta eigi fyrst og fremst að vera einhvers konar viðhorfskönnun, að fá almenna tilfinningu fyrir því hvernig þjóðinni líkar við þessar tillögur? Það hefur hins vegar takmarkað forsagnargildi, hv. þingmenn, varðandi einstök álitaefni sem þarna kann að vera um að ræða. Talað er um að taka fimm atriði út. Ég þori að fullyrða að álitaefnin í stjórnarskrárdrögunum eru miklu fleiri. Eins og ég nefndi í upphafi ræðu minnar er verið að tala um 115 nýjar greinar. Verið er að breyta 79 greinum sem eru í núgildandi stjórnarskrá og bæta 26 nýjum við. Sum af þessum atriðum eru veigamikil, önnur veigaminni, en allt getur þetta skipt máli. Mér finnst það nokkuð djarft hjá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að ætla að sortera út fimm atriði sem hann telur umdeild í þessu. Fullt af öðrum atriðum í þessum tillögum getur verið umdeilt í þjóðfélaginu, hjá einstökum hópum. Það kann vel að vera að einstaklingar eða hópar muni einfaldlega segja nei við tillögunum í heild þótt það sé bara eitt atriði eða einn kafli sem þeim líkar ekki við. Við höfum séð dæmi um það í þjóðaratkvæðagreiðslum um stjórnarskrár sem hafa þó verið fullbúnar tillögur. Stjórnarskrá Evrópusambandsins hefur verið felld í þjóðaratkvæðagreiðslum á Írlandi, Hollandi, Frakklandi, ekkert endilega vegna þess að menn væru óánægðir með allt plaggið heldur vegna þess að menn hafa verið óánægðir með tiltekna hluti. Að því leyti er þetta nokkuð áhættusöm leið fyrir þá sem eru mjög fylgjandi niðurstöðum stjórnlagaráðsins.

Hvað sem öðru líður er stefnt að þjóðaratkvæðagreiðslu um skjal sem er í miðju vinnuferli. Ég velti því upp og við gerum það í nefndaráliti okkar, við hv. þm. Pétur H. Blöndal, hvort ekki sé þægilegra og kostnaðarminna að efna til skoðanakönnunar um álitaefnin frekar en að stefna þeim í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar hvort sem er er ljóst að um er að ræða skjal sem er í miðju vinnuferli.

Ég vil nefna það hér og við gerum það í nefndarálitinu að val spurninga, þ.e. þeirra spurninga sem settar eru fram í þjóðaratkvæðagreiðslunni, og síðan framsetning þeirra er mjög viðkvæmt pólitískt mál. Það er líka spurning um hvernig standa á faglega að þeirri vinnu, því orðalagi. Við vekjum athygli á því að valið á spurningunum og framsetningin er þeim mun vandasamari vegna þess að þetta er ekki fullmótað plagg, þetta er eitthvað sem allir eða að minnsta kosti flestir í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd viðurkenna að eigi eftir að breytast áður en það verður lagt fram sem frumvarp til stjórnarskipunarlaga á hausti komanda.

Ég hef nú rakið meginefni nefndarálits okkar hv. þm. Péturs Blöndals og bætt að einhverju leyti við það. Varðandi formhliðina og í ljósi þeirrar umræðu sem átti sér stað áðan læt ég mér nægja að árétta það sem ég sagði í umræðum um fundarstjórn forseta, að auðvitað uni ég úrskurði hæstv. forseta en ég er ekki sáttur við hann vegna þess að ég tel að hér sé um það umfangsmiklar breytingar að ræða á hinni upprunalegu tillögu að eðlilegra væri að líta á þetta sem nýja tillögu en breytingu á þeirri gömlu. Allt í lagi, það er kominn úrskurður um það.

Ég geri líka athugasemd við úrskurðinn varðandi kostnaðarmatið. Það er að mínu mati ekki stóra atriðið í málunum en það er ekki áferðarfallegt að afgreiða málin með þeim hætti þegar um er að ræða skýrt ákvæði þingskapa í 2. mgr. 30. gr. þar sem gerð er krafa um að ef nefnd mælir með því að frumvarp eða þingsályktunartillaga sé samþykkt sé lagt fram kostnaðarmat með því. Það er alveg klárt í þingsköpunum. En allt í lagi, þetta er niðurstaða forseta. En hvort tveggja ber vitni um þann asa, ég leyfi mér að segja óðagot, sem var á því að ljúka þessu máli og afgreiða úr nefndinni, þessari tilteknu breytingartillögu og nefndaráliti. Ekki liggur fyrir í neinum gögnum málsins hvaða spurninga á að spyrja stjórnlagaráðið og ekki liggur fyrir hvaða spurninga á að spyrja í þjóðaratkvæðagreiðslu í sumar, sem bendir til þess að farið sé fram með þetta nefndarálit og breytingartillögu án þess að búið sé að hugsa allt dæmið til enda.

Að lokum, hæstv. forseti, legg ég til að breytingartillaga meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verði felld, og verði hún samþykkt að þingsályktunartillagan verði líka felld.