140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ræðu hans. Það er mitt mat að fyrir þá sem ætla sér yfir höfuð að taka efnislega afstöðu til þessa mikilvæga máls sé þessi ræða hans skyldulesning. Ég tek undir með honum. Það sama á við um mig og um hann, ég er íhaldsmaður þegar kemur að stjórnarskránni. En það blasir við að taka á ákveðnum málum.

Vegna reynslu hv. þingmanns af því að sitja í nefnd um stjórnarskrárbreytingar til nokkurs tíma, en hann var einn af þremur fulltrúum Sjálfstæðisflokksins í þeirri nefnd, langar mig að spyrja hann: Ef Samfylkingin hefði ekki á þeim tíma verið pikkföst í því að engu mætti breyta varðandi forsetann, ef Samfylkingin hefði treyst sér í breytingar á ákvæðinu, hefði ekki verið unnt að vinna að þverpólitískri lausn að breytingum á stjórnarskránni í þeim anda að hægt væri að breyta ákvæðunum um forsetann og síðan hinu margnefnda auðlindaákvæði í stjórnarskrá? Telur þingmaður að hægt hefði verið að ná pólitískri sátt og samkomulagi um þær mikilvægu breytingar sem ég held að margir séu sammála um?

Í öðru lagi langar mig að spyrja þennan reynda þingmann þegar kemur að stjórnarskránni hvort dómur Hæstaréttar í síðustu viku hafi sýnt fram á að stjórnarskráin sé algjörlega úr sér gengin og hvort dómur Hæstaréttar sé á þann veg að stjórnarskráin hafi ekki verið til hjálpar almenningi í landinu með þeim hætti sem verið er að ræða?

Í þriðja lagi spyr ég, af því ég hef ekki komið að þessari nefnd sem skiptir okkur svo miklu máli: Skynjar hv. þingmaður mikla tímapressu af hálfu stjórnarflokkanna í þessu máli? Ef hann gerir það, af hverju?