140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni, framsögumanni 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fyrir ræðu hans. Hann kom víða við. Mig langar að spyrja hann aðeins út í það sem kom fram í ræðunni varðandi ummæli formanns nefndarinnar áðan, hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur. Þar spurði ég um hvers vegna skýrsla stjórnlagaráðs var tekin úr höndum Lagastofnunar Háskóla Íslands þegar ljóst var að stofnunin taldi að heilt ár þyrfti til að vinna svokallað álagspróf, eins og formaður nefndarinnar kallaði það, en ég vil meina að það hafi raunverulega verið samlesning og samræming sem Lagastofnun var falið. Telur þingmaðurinn að einhver pressa hafi komið frá ríkisstjórninni um að taka þetta mál úr höndum Lagastofnunar, því að fallið hafa mörg miður falleg orð um lögfræðinga og lögmenn innan stjórnarmeirihlutans í nefndinni, svo sem að „lögfræðielítan“ eigi sko ekki að koma að því að semja þessa stjórnarskrá o.s.frv.? Það eru miklir fordómar innan meiri hluta nefndarinnar er snúa að þeim sérfræðingum sem hvað mest vit hafa á þessum málum. Þetta er spurningin sem mig langar til að beina til þingmannsins.

Eins líka varðandi hugmyndir um hvaða atriði stjórnlagaráð á að fara að taka á aftur, kaflar eins og um forsetann, kosningafyrirkomulagið, þröskulda um þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það ekki mat þingmannsins að stjórnlagaráð hafi nú þegar tjáð sig í skýrslunni sem það skilaði til Alþingis um hvaða álit það hafi á þessum köflum? Er ekki stjórnlagaráð með þessari tillögu raunverulega að fara að endurskoða sjálft sig? Hver er tilgangurinn með því þegar þingmenn vita hver er (Forseti hringir.) skoðun ráðsins í þeim málum sem á að beina til þeirra á ný?