140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Já, ég er nýbúin að fara yfir stjórnarskrárbrot ríkisstjórnarinnar á þeim rúmu þremur árum sem hún hefur setið og skrifaði um það grein sem birtist í Morgunblaðinu síðustu helgi.

Fyrstan skal telja þann dóm sem féll núna 15. febrúar varðandi gengistryggðu lánin.

Í öðru lagi skal nefna hinn fyrri dóm sem féll varðandi Flóahrepp þegar hæstv. umhverfisráðherra fór þar fram með umhverfismat og Hæstiréttur dæmdi henni í óhag. Þá sagði hæstv. umhverfisráðherra: Ég er í pólitík. Þannig voru nú viðbrögðin við því.

Stjórnlagaþingið var úrskurðað ógilt af Hæstarétti.

Ríkisstjórnin tók ekki mark á tveimur þjóðaratkvæðagreiðslum sem voru bindandi samkvæmt stjórnarskrá vegna þess að forsetinn ákvað að vísa lögum í þjóðaratkvæðagreiðslu sem urðu þar með bindandi vegna þess að þær voru byggðar á 26. gr. stjórnarskrárinnar.

Hæstv. forsætisráðherra hefur hlotið dóm fyrir úrskurðarnefnd jafnréttismála þegar hún tók hæfan karlmann fram fyrir hæfa konu.

Brotaferillinn er orðinn mjög langur. Hér erum við að tala um þrjá dómsúrskurði Hæstaréttar, við erum jafnvel með tvo stærstu dómana, tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, sem ríkisstjórnin fer ekki eftir, og svo eitt jafnréttismál sem hæstv. forsætisráðherra fór ekki eftir. Þetta er mjög alvarlegur hlutur, en því miður kemst ríkisstjórnin upp með þessi brot án þess að gera neitt. Ráðherrar setja undir sig hausinn og halda bara áfram, drepa málunum á dreif og sitja sem fastast í stólunum.

Þetta er alvarlegur hlutur í lýðræðisríki og lýsir ástandinu hér á landi þar sem öllum er haldið í óvissu og meira að segja ríkisstjórnin fer ekki að lögum en sjálf ætlast hún til þess að hér verði samþykkt lög sem landsmenn eigi að fara eftir.