140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka sérstaklega vel fyrir þessar upplýsingar og þessa upptalningu. Það er náttúrlega mjög mikilvægt þegar menn fjalla um stjórnarskrá og verður mjög mikilvægt fyrir þjóðina, þar sem margir hverjir vilja fá nýja stjórnarskrá, að vita það hvernig hún verður í framkvæmd vegna þess að fallegustu stjórnarskrárnar eru hjá ríkjum sem hugsa ekki mikið um framkvæmd stjórnarskránna, þá breytir engu að hafa fallega stjórnarskrá.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um ferlið sem þessi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir, að farið verði í þjóðaratkvæðagreiðslu með forsetakosningunum. Hv. þm. Þór Saari nefndi hér fyrr á fundinum að það væri ekki gott ef pólitísk kosning yrði um stjórnarskrána, málið væri í rauninni allt annars eðlis, en kjör forseta væri sem sagt pólitískt. Samt sem áður kemur fram í nefndaráliti frá meiri hlutanum að þetta eigi að fara fram með forsetakosningunum. Það vekur mér dálitla furðu að frumvarpi, sem hv. þingmaður flutti og var 1. flutningsmaður að, er breytt þannig að allt í einu eigi að gera eitthvað sem hann vildi ekki.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig lýst henni á að menn séu að fara að kjósa forseta Íslands, það er eiginlega fullt verkefni, og í leiðinni, svona aukalega, greiði þeir atkvæði um stjórnarskrá fyrir lýðveldið eins og það sé eitthvert aukaverkefni?