140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:51]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir. Mig minnir að ég hafi nefnt það í ræðu minni áðan að einmitt það að fara með svona spurningar til kjósenda er vandasamt verk. Það þarf að undirbúa og skipuleggja vel. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefur þegar leitað ráða hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sem ráðgjafa í því verki og það er mikilvægt að menn hafi góðan tíma til að undirbúa það sem liggur fyrir í þessum efnum.

Þegar settur er upp valkostur eins og heil stjórnarskrá frá A til Ö þurfa þeir sem vega það og meta að horfa til þess sem þeir hafa í höndunum annars vegar og þess sem er í boði hins vegar, burt séð frá tilgreindum ágöllum sem menn kunna að horfa til í nýrri tillögu. Þess vegna skipta líka máli nákvæmlega þau atriði sem við teljum að sé mestur ágreiningur um og ástæða til að taka út sérstaklega og spyrja út í til að fá mat þjóðar á þeim atriðum sérstaklega, burt séð frá heildarfrumvarpinu. Ég tek líka undir það sem ég las út úr spurningu hv. þingmanns, það þarf ekki að spyrja allra spurninga til að fá annaðhvort já eða nei. Það er alveg hægt að hafa mælikvarða eins og í skoðanakönnun í slíkum spurningum þannig að við fáum gildismat þeirra sem svara á einstök atriði. Það mætti líka hugsa sér, og það er bara það sem ég hef velt vöngum yfir, hvort það eigi að vera í boði auð lína (Forseti hringir.) þar sem menn geti skrifað inn athugasemdir um mat sitt á stjórnarskránni.