140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[17:54]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér sýnist á öllu að hv. þingmaður sé bara á móti því skjali sem við erum að ræða hérna. (Gripið fram í: Noh!) Hann vill ekki að fólk kjósi um stjórnarskrá já eða nei, heldur á að segja: Stjórnarskrá helst — mikið hlynntur — minna hlynntur — mikið á móti — lítið á móti. Svo eigi að fara í gegnum einstaka liði. Mér heyrist á öllu að hann sé eiginlega kominn niður í skoðanakönnun.

Það sem hér er verið að tala um er að þingsályktunartillaga stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar verði komin í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu sem eitt stykki stjórnarskrá. Það er ekki í boði að menn geti greitt atkvæði mikið með eða lítið með. Þetta er bara já eða nei, ertu sammála þessu plaggi eða ekki? Það er ýmislegt gott í tillögum stjórnlagaráðs og þess vegna óttast ég hreinlega að þetta verði fellt. Tillögurnar eru enn þá mjög hráar og það er hægt að gagnrýna mjög mikið vissa hluti. Ég held að það sé verr af stað farið en heima setið í því að bera þetta undir þjóðina á þessu stigi. Það væri miklu betra að gera það seinna og langbest væri að fara í almenna skoðanakönnun, fá eitthvert fyrirtæki til að framkvæma skoðanakönnun hjá sæmilega stóru úrtaki og spyrja spurninga eins og: Hvernig líst þér á þetta ákvæði, t.d. um Lögréttu? Mér finnst það mjög skynsamlegt þótt reyndar þyrfti að víkka út gildissviðið.

Önnur gæti verið: Hvernig líst þér á að hafa alls konar stofnanir í stjórnarskrá, umboðsmann Alþingis, ríkisendurskoðanda, af hverju ekki Fjármálaeftirlitið gagnvart bönkunum? Ég spyr: Af hverju er það ekki í stjórnarskránni líka? Það skiptir einstaklingana ekki síður máli en ýmiss konar mannréttindi.