140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[18:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er naumast að það liggur illa á Sjálfstæðisflokknum í dag. Mér fannst það vart sæmandi af formanni flokks með svo glæsta sögu og svo sannarlega hefur komið að stjórnarskrármálum með jákvæðum hætti að taka til orða eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson gerði. Hann forsómaði allt sem gert var. Að vísu sá hann að sér undir lokin og sagði að það væri mikilvægt innlegg.

Það er ekki svo að þessi stjórnarskrárdrög hafi dottið af himnum ofan. Byrjum á því að skoða upphaf þessa máls. Haldinn var þjóðfundur þar sem menn ræddu hugmyndir sem síðan ætti að vinna úr. Hver átti hugmyndina að þeim þjóðfundi? Ég man ekki betur en það hafi verið formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, sem átti hana. Þær hugmyndir voru síðan unnar betur af því sem hv. þm. Bjarni Benediktsson greinilega hefur vegið á sínum pundara og komist að að er léttvægt fólk. En það er samt sem áður fólk sem er prófessorar í stjórnarskrárfræðum, prófessorar við Háskóla Íslands, fólk sem hefur getið sér afburðaorð fyrir þekkingu sína og getu. Hv. þingmaður talar eins og afurðir þess og hugmyndir, sem hann þekkir mætavel eins og ég af vinnu minni og hans með sumum þessara manna, skipti engu máli.

Í kjölfarið er síðan unnið af stórum hópi fólks, stjórnlagaráðinu, sem er fulltrúar ólíkra þjóðfélagsafla og þjóðfélagshópa og ólíkra svæða á landinu og út úr því kemur þessi vinna, þessi afurð sem hv. þingmaður, formaður stærsta stjórnmálaflokksins í landinu, vill bara kasta út í hafsauga, talar af óvirðingu og nánast fyrirlitningu um þetta fólk með þeim hætti sem sæmir ekki, hvorki þingmanni og alls ekki formanni stjórnmálaflokks hvað þá manni sem kallar til þess að verða leiðtogi þjóðarinnar. Svona tala menn einfaldlega ekki. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Um þetta verður síðan þjóðaratkvæðagreiðsla og menn vinna síðan þetta næsta vetur á þinginu. (Forseti hringir.) Hvað er að þessum vinnubrögðum? Það er bara ekkert að þeim. Og ef einhver ætti að skammast sín eru það þeir menn sem tala svona.