140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[18:18]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra fer frekar létt með það að halla réttu máli og sérstaklega þegar hann á í vök að verjast málefnalega. Hann veit sem er að tillögum stjórnlaganefndar var snúið á hvolf af stjórnlagaráðinu. Hann veit sem er að stjórnlaganefndarmenn hafa ekki gert tillögur stjórnlagaráðsins að sínum. Hann veit sem er að ég tilgreindi engan úr stjórnlagaráðinu og nefndi að ég bæri ekki traust til hans, og ég talaði aldrei um að ég bæri ekki traust til stjórnlagaráðsins sem slíks. Það sem ég gerði athugasemdir við hér, og þetta hefði hæstv. ráðherra athugað ef hann hefði lagt við hlustir þegar ég flutti mál mitt áðan, var málsmeðferð Alþingis. Það er hún sem er til skammar og ég veit að hæstv. ráðherra er með slæma samvisku í þessu máli. Það getur bara ekki annað verið vegna þess að ég hef reynslu af því að vinna með hæstv. ráðherra að endurskoðun stjórnarskrárinnar þar sem faglega var staðið að málum í stjórnarskrárnefndinni, þar sem menn fóru af yfirvegun með okkar færasta fólki yfir hvern kaflann á fætur öðrum en vörpuðu ekki frá sér ábyrgðinni, vörpuðu ekki frá sér öllu verkefninu eins og hér er verið að gera.

Finnst hæstv. ráðherra boðlegt að þingið sé nú að fara að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfa stjórnarskrána og leggja fyrir þjóðina drög að heilli stjórnarskrá án þess að hafi farið einn dagur í efnislega umræðu um málið í þinginu, um málið sjálft? (Gripið fram í: Þú varst ekki …) (Gripið fram í.) Finnst mönnum þetta boðlegt? Er mönnum alvara með þetta? (Forseti hringir.) Gera menn sér ekki grein fyrir því að við erum með löggjafarvaldið í stjórnarskrármálum? (Gripið fram í: Hún var hér til umræðu ...)