140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[18:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu sem á að skipuleggja það ferli hvernig unnið verður úr tillögum stjórnlagaráðs sem setti fram heilmiklar tillögur í langri skýrslu. Ótrúlega lítil umræða hefur farið fram um þetta. Það fór fram ein umræða um þingsályktunartillöguna. Þar höfðum við tvöfaldan tíma, ég fékk að tala í 30 mínútur um skjal sem var um 226 síður og er með ótal köflum og málsgreinum, um 380 málsgreinum. Þetta átti ég að ræða á 30 mínútum. Mér tókst reyndar að smygla mér inn í andsvör og bætti við 24 mínútum. En þetta er ekki nokkur einasta umræða um stjórnarskrá Íslands. Þetta er það sem hv. alþingismenn hafa fengið að ræða málið og leiddi til þess að ég sá mig knúinn til að skrifa umsögn til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem er að fjalla um málið til að koma sjónarmiðum mínum á framfæri.

Ég held að það sé ekki mjög oft, frú forseti, að hv. þingmenn skrifa umsagnir um mál til nefnda. Það er vegna þess að það er bara ein umræða og þetta er allt sem við getum sagt um þetta, ég get bara talað í 54 mínútur.

Allt ferlið er mjög vandræðalegt, eiginlega dapurlegt. Ég ber mikla virðingu fyrir stjórnarskránni. Þetta er grundvallarplagg og mér finnst að einungis eigi að breyta því að vel yfirveguðu máli, og breytingar eigi að vera mjög fátíðar. Ég ber mikla virðingu fyrir þessu og ég vil að þetta sé rætt alveg í hörgul, hvert einasta orð vegið og metið í stjórnarskrárdrögum. Það hefur ekki verið gert.

Ég ætla ekki að fara í gegnum allan vandræðaganginn með kosningu stjórnlagaþingsins, sem var ógild. Hér kemur líka fram að þetta er í fyrsta skipti sem skipað er ráð á vegum Alþingis án þess að allir flokkar fái fulltrúa þannig að allur gangur málsins er vandræðalegur. Meira að segja nú þegar meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar kemur með tillögu um hvernig ferlið eigi að vera — einhverjar þjóðaratkvæðagreiðslur og slíkt — breytir nefndin þingsályktunartillögu sem lá fyrir í staðinn fyrir að flytja þingsályktunartillögu sjálf. Þau gerbreyta henni, leggja fram allt aðra og nýja þingsályktunartillögu, þannig að ferlið er áfram jafndapurlegt. Þessi breytta þingsályktunartillaga, sem við ræðum núna, er á gráu svæði, eins og við ræddum fyrr í dag. Það er dapurlegt að verða vitni að þessum vandræðagangi við allt ferlið, alveg frá byrjun til enda.

Ég ætla ekki að ræða það að þátttakan var mjög lítil í kosningum til stjórnlagaþings en einungis 34% kjósenda tóku þátt í þeim. Það er mjög lítið á íslenskan mælikvarða þar sem kosningaþátttaka er yfirleitt mjög mikil, 70–80%. Það ætti að gefa mönnum ákveðið merki um að eitthvað sé að. Fyrir utan það að kosningin var svo flókin að ég hugsa að það séu ekki margir Íslendingar sem gætu útskýrt fyrir mér af hverju þessi fékk kosningu en ekki einhver annar. Ég mætti á kjörstað en þegar maður þarf að kjósa á milli 500 manna er farið að sjóða á hausnum á manni. Ég reyndi að kynna mér 100 frambjóðendur en komst ekki yfir að fá mynd af skoðunum þeirra í stjórnarskrármálum. Ég náði ekki að afla mér upplýsinga um það þannig að ég kaus eiginlega alveg blint. Ég hefði allt eins getað kosið eftir úllen dúllen doff aðferðinni í þeirri kosningu. Ferlið er allt mjög dapurlegt.

Í nefndaráliti meiri hlutans kemur fram að yfir 200 umsagnir hafi borist þar sem mælt hafi verið með frumvarpinu. Það er ekkert talað um annað. Ekkert er talað um alla þá gesti sem komu og voru ekki alveg eins hrifnir en sérstaklega tekið fram að umsagnir hafi meðal annars borist frá meira en 200 einstaklingum sem lýstu yfir algerum stuðningi við frumvarp stjórnlagaráðs og kröfðust þess að þjóðin fengi að kjósa um málið óbreytt sem allra fyrst.

Mér þætti gaman að ræða við þetta fólk og ég skora á nefndina að kalla það fyrir, ekki kannski alla, það væri kannski fullmikið, en að kalla fyrir einhverja af þessum umsagnaraðilum og spyrja þá út í stjórnarskrána. Hvað finnst ykkur til dæmis um Lögréttu? Það þarf að vita hvort menn hafa yfirleitt lesið plaggið. Lögrétta er alveg ljómandi skemmtilegt fyrirbæri í þessum drögum — það er mjög margt í þessu skemmtilegt — nema það að Lögrétta á að vera sérstofnun og Alþingi á að kjósa þá menn sem þar sitja. Og hvað á Lögrétta að gera? Það eina sem hún á að gera er að tékka af frumvörp frá Alþingi, samkvæmt beiðni þingmanna. Búin er til heil stofnun til þess eins og Alþingi kýs þá sem þar starfa. Hvernig í ósköpunum getur slík stofnun farið í gegnum frumvörp frá Alþingi?

Ég er búinn að senda umsögn til nefndarinnar sem ég vona að verði skoðuð þó að menn skoði yfirleitt ekkert efnislega. Þar lagði ég til að Lögrétta væri ekkert annað en fullskipaður Hæstiréttur, að fullskipaður Hæstiréttur myndaði Lögréttu. Ég lagði líka til að Lögrétta gerði sitthvað fleira. Þegar upp kæmi ágreiningur í dómsmáli, þ.e. ef eitthvert ákvæði í lögum rækist á við stjórnarskrá, yrði hægt að vísa því til Lögréttu, hún yrði þá stjórnlagadómstóll. Þetta finnst mér fín umræða, frú forseti, og þyrfti að skoða kosti þess og galla. Með þessum hætti yrði Lögrétta eins konar stjórnlagadómstóll þegar um væri að ræða ágreining milli laga og stjórnarskrár. Það gæti orðið mjög sniðug lausn og tiltölulega ódýr þar sem Hæstiréttur er þegar að störfum.

Gaman væri að spyrja það fólk sem vill fá drögin óbreytt í gegn út í atriði af þessum toga, hvort ekki væri ráð að breyta drögunum pínulítið og gera Lögréttu að virkilega góðu tæki, stofnun sem gæti tekið á vandamálum sem snúa að einstaklingum sem varða það hvort ákveðin lög brjóta gegn stjórnarskrá, eins og hæstaréttardómurinn um daginn fjallaði til dæmis um. Þá hefði Lögrétta tekið þann enda af dæminu, það sem braut stjórnarskrána. Ef lög brjóta stjórnarskrá þá geri ég ráð fyrir að þau falli bara úr gildi eftir að Lögrétta hefur fjallað um þau, þá falli þau ákvæði bara úr gildi. Það hefði verið miklu hreinlegra og gáfulegra í sambandi við þá dóma sem fallið hafa. Hæstiréttur hefur nokkrum sinnum fellt þann dóm að framkvæmd laga eða lagaákvæði brjóti stjórnarskrá og í slíkum tilvikum gæti Lögrétta dæmt ákvæðið ógilt þannig að viðkomandi ákvæði féllu úr gildi. Umræða í þessa veru er mun skynsamlegri en að vera að tala um að 200 manns hafi sent umsögn í fjölpósti og sagst styðja drögin. Það er fráleitt að meiri hlutinn skuli nota þá staðreynd sem rök fyrir því að málið sé ljómandi gott og eigi að fara óbreytt í þjóðaratkvæðagreiðslu og helst eigi að samþykkja það óbreytt.

Þar sem lítið hefur verið rætt efnislega um þessa tillögu stjórnlagaráðs að frumvarpi ætla ég að leyfa mér að gera það, frú forseti, þó að við séum hér að ræða ferlið. Ferlið er á þann veg að nú fer málið í þjóðaratkvæðagreiðslu og bæta á við einhverjum spurningum, einhvers konar skoðanakönnun. Enginn hefur rætt um það hvað gerist ef tillögunni verður hafnað. Er þá bara öll vinnan fyrir bí? Það þætti mér mjög miður, frú forseti, vegna þess að ég tel mjög margt í þessum tillögum stjórnlagaráðs gott, mjög margt sem þarf að skoða.

Það er mjög neikvætt ef það er rétt sem sumir hafa ýjað að, að verið sé að kaupa Hreyfinguna til fylgis við ríkisstjórnina og þess vegna sé málið keyrt í gegn með þessu hraði. Ég ætla að vona að það leiði ekki til þess að þjóðin felli þetta í kosningu og öll vinnan verði þá til einskis. Það væri mjög neikvætt. Þetta er alveg stórhættulegt ferli sem við erum að fara út í, og sumir kunna að túlka það á þann veg.

Það getur ýmislegt gerst í þjóðaratkvæðagreiðslu af þessum toga. Í fyrsta lagi getur verið að einungis 10% kjósenda nenni að greiða atkvæði um málið. Það getur vel verið að fólk mæti á staðinn til að kjósa forseta en það sé aðalatriðið og fólk láti sig þjóðaratkvæðagreiðsluna litlu varða. Hvað þýðir það ef 10% greiða atkvæði og 6% samþykkja? Hvaða skilaboð eru það? Hvað gerist ef lítill meiri hluti samþykkir þessi drög? Hvað þýðir það eiginlega? Og hvað á að gera við slíka niðurstöðu? Hvað skyldi hinn venjulegi Íslendingur, hinn venjulegi kjósandi, halda? Hann fer á kjörstað, greiðir atkvæði um stjórnarskrána sína og svo kemur Alþingi um haustið og gerbreytir henni, tekur ýmislegt út og setur annað inn o.s.frv. Það sem fólk greiddi atkvæði um er þá kannski hvergi til staðar. Það kemur allt annar ungi út úr egginu en kjósandinn átti von á. Það kemur risaeðla þegar von var á fallegum hænuunga eða erni, eftir atvikum, eftir því hvernig menn líta á þetta. Þetta er allt að því hættulegt ferli. Og fram að þessu hefur allt við þetta ferli verið vandræðalegt og slæmt.

Hvert ætti að vera meginmarkmið þess sem tekur að sér að semja stjórnarskrá, frú forseti? Það er að þjóðin skilji stjórnarskrána sína, að ekki þurfi her af lögfræðingum til að túlka hana svo að þjóðin skilji. Hvað þýðir 26. gr.? Það á ekki að þurfa 10 eða 20 síðna skýrslur lögfræðinga um það hvað 26. gr. þýði. Stjórnarskrána á að skrifa á tungumáli sem 80% þjóðarinnar skilur hana án aðstoðar, geti bara lesið hana og skilið, að ekki þurfi að túlka það sem þar stendur á einn veg eða annan og enginn minnsti vafi sé um merkinguna. Þau drög sem við ræðum hér byggja ekki á þessu markmiði. Þar eru mjög flóknar tillögur, heilu kosningareglurnar eru settar inn í stjórnarskrá, alger útfærsluatriði í praxís — þetta á ekki að standa í stjórnarskrá, frú forseti, alls ekki.

Það þarf líka að ræða það hvað gerist þegar menn breyta stjórnarskrá. Hvað gerist þegar einu orði í einu ákvæði í stjórnarskrá er breytt? Allir hæstaréttardómar sem hafa vísað í og fjallað um það umrædda ákvæði hafa þá ekkert gildi. Lagaóvissan verður mjög mikil þar til dómstólar og þá Hæstiréttur — og ef þetta verður samþykkt þá Lögrétta — er búinn að segja hvað þetta þýði í raun í mörgum mismunandi praktískum málum. Þetta er sérstaklega varasamt fyrir þá þjóðfélagshópa sem þurfa mest á stjórnarskránni að halda. Hverjir skyldu það nú vera? Það eru þeir veikari í þjóðfélaginu. Það eru öryrkjar, það eru aldraðir og það er alls konar fólk sem þarf á aðstoð að halda. Ef við breytum einu ákvæði fer allt á hreyfingu og mikil óvissa skapast.

Auðvitað látum við það ekki stöðva okkur í því að búa til nýja stjórnarskrá, en menn þurfa að vera meðvitaðir um þetta. Þeim mun fleiri ákvæðum sem við breytum því meiri réttaróvissa myndast. Þá vita menn ekkert. Er úrskurðurinn um mál hæstv. umhverfisráðherra ekki lengur í gildi af því að búið er að breyta ákvæðinu? Hæstiréttur felldi þann dóm að það sem hæstv. umhverfisráðherra gerði hefði verið stjórnarskrárbrot, er það þá allt í einu ekki lengur í gildi? Allt það sem menn hafa vitað hingað til verður fallið úr gildi þegar menn breyta stjórnarskránni í heilu lagi. Þetta þarf náttúrlega að ræða ítarlega og veita Hæstarétti, og Lögréttu ef það yrði samþykkt, leiðsögn um hvað þessar breyttu greinar þýða.

Svo er ein ónáttúra í þessum drögum öllum, og ég verð að kalla það ónáttúru. Það er til dæmis ákvæðið: „Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.“ Allt í lagi. Hver tryggir? Ekki stjórnarskráin. Hver tryggir? Alþingi þarf væntanlega að setja lög, maður ályktar sem svo að Alþingi þurfi að setja lög sem tryggja rétt barna til umönnunar og velferðar. Ég er búinn að fara í gegnum þetta allt saman og það eru 86 málsgreinar þar sem forsenda stjórnarskrárákvæðisins er lagasetning, þ.e. búið er að flytja vald stjórnarskrárinnar yfir til Alþingis, það er búið að fletja það út. Þetta er stórhættulegt. Í stjórnarskránni á bara að standa: Börn eiga rétt á umönnun og framfærslu. Þá geta allir vitað það. Þá geta dómstólar dæmt þó að Alþingi geri ekki neitt og þó að Alþingi geri eitthvað annað. En ef það þarf lagasetningu þá fara lögin allt í einu að móta stjórnarskrána. Þá er búið að flytja valdið frá stjórnarskránni yfir til þingsins og svo semur þingið lög og þar eru reglugerðarheimildir. Þá er búið að flytja valdið áfram til embættismanna. Þetta er mjög hættuleg þróun og það eru 86 greinar og ég er búinn að gera tillögur um að breyta hverri einustu í þá veru að aðstoðar löggjafans sé ekki þörf við það að túlka stjórnarskrána. En samtals eru 383 málsgreinar og fyrirsagnir í þessum texta frá stjórnlagaráði.

Ég ætla ekki að fara í nein fínheit eins og þau hvernig maður ávarpar þann sem á að tryggja mannréttindi, hvort það er maður, manneskja, einstaklingur. Í þýsku er mjög gott orð sem er Mensch: Die Würde des Menschen ist unantastbar — ég held að það hljóði einhvern veginn þannig, þetta er eftir minni. Allir Þjóðverjar vita hvað Mensch er en manneskja er leiðinlegt orð, við gætum notað það, en þetta þarf nefndin að mínu mati að ræða. Hvernig ætlum við að ávarpa hópinn? Stjórnlagaráðið er með þetta á alla vegu. Það talar um íbúa, borgara — þeir segja líka við, sem er ágætt, mjög fínt — þá, engan, alla, menn, almenning. Þeir ávarpa hópinn sem stjórnarskráin gildir fyrir á mismunandi vegu. En það virðist vera, ef maður les texta stjórnlagaráðs nákvæmlega, að í raun eigi stjórnarskráin að gilda fyrir fólk með íslenskt vegabréf, ríkisfang. Það er líka atriði sem þyrfti að ræða. Þegar við förum til útlanda, held ég þá á mannréttindum mínum í vegabréfinu? Nýtur útlendingur sem kemur til Íslands ekki mannréttinda o.s.frv.? Þetta þarf að ræða og mér finnst tilvísanirnar í tillögum stjórnlagaráðs vera út og suður. Þetta er ekki sami hópurinn sem verið er að tala við.

Svo er það forsetinn, ég vildi gjarnan að menn ræddu það hvort við viljum hafa forseta yfirleitt. Ég hef nokkrum sinnum lagt fram frumvarp um að afnema það embætti.

Nú hef ég ekki meiri tíma, frú forseti, til að ræða þetta mikla mál. Ég þarf að ræða það efnislega þó að við séum í raun að ræða ferlið. Ég er að stelast til þess af því að það fer engin efnisleg umræða fram en þetta ferli er, í einu orði sagt, vandræðalegt.