140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[19:49]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég bendi þingmanninum á að það er stjórnarskrá á Íslandi og hún mun gilda þar til annað verður ákveðið. Hún mun ekki gufa upp þótt við samþykkjum aðra eða ekki. Við ætlum að spyrja þjóðina, vonandi, í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er akkúrat það sem hún er, ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla. Við ætlum að spyrja þjóðina ráða. Eitt af því sem (PHB: Ef hún segir nei?) þingmaðurinn spurði … Ég hef þá trú að maður eigi að spyrja spurninga en maður á ekki að ákveða svarið fyrir fram. Það getur vel verið að við fáum nei og þá þurfum við að íhuga stöðu okkar. (PHB: Hvað er þá … opið?) Ég sé ekki fram í tímann. Ég ætla ekki að vera hér í samtölum við þingmanninn. Hann nefndi sérstaklega framsal fullveldis og það er eitt af þeim ákvæðum sem ég tel að við ættum að spyrja sérstaklega út í. Við ættum að spyrja þjóðina sérstaklega: Hvað finnst þjóðinni um það ákvæði?

Hvað varðar stuðning Hreyfingarinnar við ríkisstjórnina hef ég ekki tekið eftir að sá stuðningur sé fyrir hendi. Sumir halda að allt sé til sölu og þetta mál hefur verið á dagskrá stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í nokkurn tíma, ekki skyndilega, það er búið að vera á dagskrá síðan í október á flestum fundum þannig að það er ekkert skyndilegt við það þó að það rati inn í þingsal. (Gripið fram í.)