140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:12]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það má líta svo á að þar sem einungis yrði um að ræða ráðgefandi atkvæðagreiðslu skipti í sjálfu sér ekki öllu hver fjöldinn verður. Það mun ekki binda hendur þingmanna meira hvort þátttakan verður 50%, 70% eða 10%. Hver þingmaður er bundinn sinni samvisku samkvæmt stjórnarskrá og verður að greiða atkvæði í samræmi við það.

En þessi ágæta spurning frá hv. þingmanni minnir mig á annað. Ef hið svokallaða stjórnlagaráð á að koma saman með þeim hætti sem lagt er til, vaknar upp spurningin: Liggur fyrir hversu margir sem eiga sæti í ráðinu hyggjast mæta á þessum tiltekna tíma, eiga heimangengt sökum vinnu, ferðalaga o.s.frv.? Ef ég man rétt eru engir varamenn til staðar. Er það nóg af hálfu Alþingis að 13 mæti? Ef færri mæta, hvað þá? Ég hef ekki séð neina umfjöllun um þetta. Ég hefði áhuga á að heyra það frá einhverjum af þeim ágætu hv. þingmönnum sem hafa mælt fyrir þessu máli, hvaða mörk þeir setja hvað þetta varðar. Enn á ný, það lá alveg skýrt fyrir í þeirri þingsályktunartillögu sem lagði grunninn að skipun ráðsins að það hafði takmarkaðan tíma til síns starfa eða fjóra mánuði með framlengingarmöguleika um einn mánuð. Þegar sá tími var liðinn var auðvitað skipunar- og starfstíminn liðinn. (Forseti hringir.) Ég vona að ég fái einhver svör við þessu síðar.