140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:14]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að þessar hugleiðingar komu fram í máli þingmannsins vegna þess að ég hef lagt þessar spurningar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hv. formann nefndarinnar, Valgerði Bjarnadóttur. Skemmst er frá því að segja að engin svör voru við því hvort stjórnlagaráðsmenn ættu heimangengt fyrstu helgina í mars. Það er einfaldlega ekki búið að hugsa það til enda hvernig tekið verður á því ef mikil forföll verða á ráðsmönnum, sem sýnir eina ferðina enn hversu illa málið er búið og reyndar ekki bara þetta mál heldur flest þau mál sem koma frá ríkisstjórninni.

Það er því sagt úr þessum ræðustól og ágætt að koma því í þingtíðindi, að fyrir þessu er ekki búið að hugsa. Það er einmitt ágætur hugsunargangur hjá þingmanninum að velta því fyrir sér hvað sé fullnægjandi í þessu og hvað stjórnlagaráðsmenn þurfa að vera margir til að niðurstaða verði marktæk. Þetta er samkynja þeirri spurningu sem ég lagði fyrir þingmanninn um kosningaþátttökuna í þjóðaratkvæðagreiðslunni sjálfri. Það kom fram í máli formanns nefndarinnar í dag varðandi kostnaðarliðinn að áætlað væri að þetta mundi kosta á bilinu 7–10 milljónir. Ég hef hrakið þá fullyrðingu vegna þess að verði gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu mun kostnaður við hana, samkvæmt þeirri breytingartillögu sem hér liggur fyrir, — það þarf að fjölga fólki í kjördeildum, fyrir utan allan kynningarkostnaðinn sem Alþingi er gert að fara í samkvæmt tillögu þessari — hlaupa á tugum milljóna. Og þá skulum við ekki gleyma því að kostnaðurinn er sá sami hvort sem það verða 10% sem taka þátt í þessari ráðgefandi skoðanakönnun sem lögð verður fyrir eða 45%. Fórnarkostnaðurinn er svo mikill ef ekki á að setja neinar girðingar inn í þetta. En ég tek undir með þingmanninum, eins og hefur komið fram, að þetta er einungis ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla og því má (Forseti hringir.) raunverulega segja að það sé eiginlega alveg sama hve margir taka þátt í henni, það verður jafnlítið að marka hana.