140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[20:57]
Horfa

Davíð Stefánsson (Vg):

Frú forseti. Við höfum til umfjöllunar málsmeðferð á einhverju mikilvægasta viðfangsefni stjórnmálanna í seinni tíð. Ég styð eindregið þessa málsmeðferð og tel að með henni sé stigið heilbrigt og eðlilegt skref í áttina til fullnustu vinnunnar við að fínpússa nýja stjórnarskrá Íslands.

Undanfarin ár hefur ýmislegt verið gert til að koma í veg fyrir fæðingu nýrrar stjórnarskrár. Nauðsyn þess að ráðast í ritun hennar hefur ítrekað verið dregin í efa, vinnulagið sömuleiðis og ýmsir hafa séð ofsjónum yfir kostnaðinum og látið eins og verkefnið væri eins konar dekurverkefni. Alþingi Íslendinga fékk málið til meðferðar frá stjórnlagaráði í júlí 2011, enda er það Alþingi sem hefur samkvæmt núgildandi stjórnarskrá vald til að breyta henni.

Síðan eru liðnir ansi margir mánuðir og ég hef fundið á mér og heyrt út undan mér að sumum finnist það langur tími. Óttinn er sá að Alþingi vilji svæfa málið. Sú er samt ekki raunin, að minnsta kosti ekki heilt yfir. Staðreyndin er sú að öll vinnan við nýja stjórnarskrá er falleg viðleitni til að vinna nær óvinnandi verk undir afar skökkum kringumstæðum. Hvað er átt við með því? Jú, að aðstæður í samfélagi okkar hafa undanfarin ár verið allt annað en eðlilegar. Vantraust er orðið að grunnafstöðu, ekki síst þegar kemur að stjórnmálunum, og er það ekki að ástæðulausu eins og kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan þegar hún lýsti erfiðleikum Alþingis við að breyta stjórnarskránni.

Því hef ég sagt áður og segi hér að ef allt væri eðlilegt mundi þjóðin einfaldlega treysta kjörnum fulltrúum sínum til að vinna nýja stjórnarskrá og samþykkja hana því að það er hlutverk kjörinna fulltrúa. Þeir eru kosnir til að sjá um ákveðin mál og meginlínur í samfélaginu á meðan kjósendur halda áfram sínu lífi í vinnu, skóla eða með fjölskyldu. Kjósendur velja þá stjórnmálamenn og flokka sem þeim líst best á, þeir setja traust sitt á þá. Úr þessu trausti hefur lengi kvarnast en stóra rofið átti sér samt stað í október 2008 þegar íslenska ríkið riðaði til falls og ömurlegar staðreyndir um íslenskt efnahagslíf og stjórnvöld fóru smám saman að birtast okkur. Það var þá sem margir misstu alla trú á þeim manneskjum sem kjósa að starfa í stjórnmálum, sami rassinn undir þeim öllum var sagt og er sjálfsagt enn gert.

Ef allt væri eðlilegt, það er falleg hugsun, önduðum við léttar og sæjum að þrátt fyrir allt er íslenskt samfélag ríkt af menningu, mannauði, fegurð og tækifærum. Ef allt væri eðlilegt mundu einstaklingar úr öllum flokkum skilja nauðsyn þess að rita nýja stjórnarskrá fyrir Ísland. Ef allt væri eðlilegt mundu allir leggjast á eitt við það að gera hana sem best úr garði — ef allt væri eðlilegt — því að ný stjórnarskrá er ekki bara eitthvað sem er gripið úr lausu lofti. Ný stjórnarskrá er ekki eins og að fá sér þriðja kaffibollann á kaffihlaðborði í hálfkæringi. Ný stjórnarskrá er meiri háttar ákvörðun sem Alþingi er þegar búið að taka, sem þjóðin er þegar búin að staðfesta með virkri þátttöku á þjóðfundi og í umræðum, ákvörðun sem þjóðin á að fá að staðfesta formlega í kosningum. Þetta er ákvörðun um nýja stefnu um okkar eigin samfélagsgrunn.

Hér innan húss og utan gera margir lítið úr þörfinni á nýrri stjórnarskrá. Mitt mat er hins vegar það að það verði stór dagur og bjartur þegar landsmenn fá að kjósa og samþykkja nýja stjórnarskrá, dagur til að fara í sparifötin og horfa til himins, dagur til að fagna nýju upphafi sem við höfum skilgreint í sameiningu.

Oft er talað um að þingmenn séu ekki í tengslum við þjóðina og sannarlega getur stundum verið til í því. Það er auðvelt að festast inni í takmarkaðri blöðru og sjá ekki út fyrir hana. En þegar kemur að málsmeðferð stjórnarskrárinnar hef ég almennt skynjað eindreginn vilja á Alþingi til að standa rétt að málinu, að vilja gera það sem best úr garði, að vilja vinna það faglega, að vilja vinna það í samtali við þjóðina.

Frá því að stjórnlagaráðið skilaði af sér drögum að stjórnarskrá í júlí 2011 hefur mikið vatn runnið til sjávar og margir einstaklingar, bæði voldugir og valdalitlir, boðist til að túlka hana efnislega fyrir okkur hin. Það er rétt sem hér hefur verið bent á að ráðið hafi lokið störfum en það var yfirlýstur vilji stjórnlagaráðsins þegar það skilaði inn tillögunum síðasta sumar að vinna áfram að málinu.

Hvert hefur þá hlutverk Alþingis verið í vetur þegar málið hefur verið hér til meðferðar? Að reyna að finna bestu leiðina til að ná sátt um þetta óvenjulega mál. Sú leið hefur verið vandfundin, ekki síst vegna þess að hér hefur ekki ríkt eðlilegt ástand. Stjórnarandstaðan og þingmenn hennar hafa talað um tilraunastarfsemi. Auðvitað er sannleikskorn í því að ferlið hafi verið ákveðin óvissuferð. En gleymum ekki ástæðunni fyrir því að þetta mál þarf að vinna eitt skref í einu í sérstöku og óvenjulegu samspili þings, sérfræðinga og þjóðar. Gleymum ekki að ástæðan fyrir því er hið títtnefnda og djúpa vantraust sem ríkir á milli þings og þjóðar, ekki síst þegar kemur að því að breyta stjórnarskránni.

Ég hef setið sem varamaður á þingi síðustu vikur og fengið að sitja fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Formaður nefndarinnar á heiður skilinn fyrir að höndla þetta viðkvæma mál af festu og skýrleika undir erfiðum kringumstæðum. Hér fyrr í dag lýsti formaður því hvernig stemningin væri í nefndinni og ég vil taka undir þá lýsingu. Tilfinning mín er því miður sú að sjálf málsmeðferðin hefði aldrei skipt verulegu máli heldur hefði minni hlutinn lagst af nákvæmlega sama þunga á hvaða þá leið sem valin hefði verið.

Að lokum langar mig að segja, frú forseti: Alþingi þarf að sýna ábyrgð í þessu máli eins og öðrum, en sú ábyrgð er margþætt og það er það sem gerir þetta mál svona flókið. Í fyrsta lagi felst þessi ábyrgð í því að taka tillögum stjórnlagaráðs alvarlega og taka mark á vandaðri vinnu þeirra. Í öðru lagi felst ábyrgðin í því að hlusta samt á gagnrýnisraddir, taka mark á þeim og þora að vinna með þær til umbóta. Í þriðja lagi felst ábyrgð Alþingis í því að hlusta á þjóðina og spyrja hana álits, fyrst í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu og að lokum í bindandi atkvæðagreiðslu sem festir nýjan samfélagsgrunn okkar formlega í sessi.