140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[21:05]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Þetta hefur að mörgu leyti verið áhugaverð umræða um þetta stóra mál. Það er vitanlega stórmál að ræða breytingar á stjórnarskrá landsins. Það er í raun risamál að breyta stjórnarskrá og þar af leiðandi ber okkur skylda til að vanda mjög til verka við þá vinnu alla.

Hér hefur töluvert verið rætt um söguna og hvernig staðið hefur verið að umræðum um breytingar, eða hvernig breytingar hafa orðið eða ekki orðið. Eflaust má tína til ýmsar ástæður fyrir því að sumum finnst að illa hafi gengið að breyta stjórnarskránni en öðrum að það hafi gengið ágætlega. Eins og gengur eru skoðanir skiptar á þessu máli. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að skoðanir séu skiptar um það ferli sem hér á sér stað. Það sem mörgum okkar finnst hins vegar slæmt við þetta ferli — eða mér, best að tala bara fyrir mína hönd ekki annarra — er að ekki er, eins og ég skil ferlið hvernig það var í nefndinni, vandað til verka. Ég tek fram að ég er ekki að setja út á einstaka nefndarmenn eða formann nefndarinnar eða slíkt. Ég geri mér grein fyrir því að það er pressa á að málið verði klárað á einhvern hátt. Það verðum við að taka inn í myndina þegar við horfum á þetta ferli allt saman.

Eftir að hafa kíkt á umsagnir sem bárust nefndinni og lesið mjög ítarlega umsögn tveggja sérfróðra manna um þetta málefni sýnist mér hins vegar að ekki sé vandað nóg til verka. Í umsögnum er varað við ýmsum atriðum, til dæmis farið mjög ítarlega í einstakar greinar og einstaka kafla og gerðar athugasemdir. Ég fæ ekki séð að nefndin hafi efnislega tekið afstöðu til þeirra athugasemda, en sé í raun að vísa þeim til stjórnlagaráðs til umfjöllunar og efnislegrar meðferðar sem ég tel mjög óeðlilegt. Ég held að nefndin hefði átt að fara sjálf yfir þessar athugasemdir.

Ég vil, frú forseti, óska eftir því að tekið verði saman minnisblað um athugasemdirnar, að þær verði listaðar upp miðað við einstakar greinar o.s.frv. Það hefur verið gert í nokkrum þingnefndum í einstökum viðamiklum málum. Í umræðum í iðnaðarnefnd hinni fornu um vatnalögin var það til dæmis gert. Ég held að það sé mjög gott að gera slíkt.

Einnig hefur umræða um Framsóknarflokkinn og stjórnlagaþing eða stjórnlagaráð og það allt orðið nokkuð skemmtileg. Engum á að dyljast afstaða mín varðandi það allt saman. Ég hef áður sagt það úr þessum stól að ég studdi í fyrstu atrennu tillögu um að kosið yrði til stjórnlagaþings eða stjórnlagaráðs, eða hvað við köllum það. Ég kom jafnframt hingað upp þegar ljóst var að Hæstiréttur hefði úrskurðað þær kosningar ógildar og sagði að virða ætti úrskurð Hæstaréttar. Ég er og hef verið algjörlega mótfallinn því ferli sem þá fór af stað og tel að þar hafi þingið ekki gert góða hluti. Ég sagði einnig að ef menn ætluðu að halda þessu áfram ætti að kjósa upp á nýtt. Við það stend ég og hef stutt það frá þeim tíma.

Það er hins vegar sérkennilegt að hlusta á þá umræðu, í ljósi þess að 37% landsmanna kusu til stjórnlagaráðsins á sínum tíma, að stjórnlagaráðið hafi betra eða meira umboð en við þingmenn sem höfum þá væntanlega 90% á bak við okkur. Um 90% kjósenda kusu okkur til þings og þá meðal annars til þess að fjalla um stjórnarskrána. Ég er því ekki sammála þeim rökum sem fram hafa komið í því atriði.

Ég held að það umboð sem stjórnlagaráð hafði hafi ekki verið á réttum forsendum þar sem ákveðið var að sniðganga úrskurð Hæstaréttar, sem mér fannst mjög slæmt. Ég get ekki fallist á þau orð sem féllu fyrr í dag, um að hér væru stunduð falleg, heiðarleg og nútímaleg vinnubrögð, þegar fyrsta vers er að sniðganga það sem Hæstiréttur úrskurðar.

Það á að vera erfitt að breyta stjórnarskránni, þetta er grundvallarplagg. Ég er ósammála þeim sem segja að í raun skipti ekki máli hver semji stjórnarskrá. Stjórnarskráin hlýtur að þurfa að uppfylla ákveðin lagaleg viðmið og skilyrði. Hún er okkar grunnplagg og þegar allt um þrýtur er leitað til stjórnarskrárbundins réttar til að kveða upp úr um álitamál. Þar af leiðandi er mjög mikilvægt að stjórnarskráin standist lagalega skoðun. Eftir að hafa kíkt á athugasemdir ýmissa aðila, og sér í lagi athugasemdir frá tveimur fulltrúum í stjórnlaganefndinni svokölluðu, sýnist mér að mikill vafi leiki á því að þessar tillögur standist með góðu móti þær lagalegu kröfur sem verður að gera til stjórnarskrár. Ég mun fara sérstaklega yfir það hér á eftir.

Ég vil enn og aftur koma því á framfæri að ég er sammála þeim sem segja að það þurfi að skýra eða fara yfir ákveðna þætti í stjórnarskránni. Vil ég þar enn og aftur nefna auðlindakaflann. Ég er sammála þeim sem telja að skýra þurfi hann, skýra það hvað felist í þjóðareign, en þá má heldur ekki vera nokkur vafi um það hvað það þýðir.

Orðalag í stjórnarskrá má ekki vera óljóst. Það á ekki að vera hægt að túlka það sem þar kemur fram á marga vegu. Mér sýnist hins vegar að margar af þeim tillögum sem stjórnlagaráð sendi frá sér kalli á viðamiklar pælingar, svo að ég noti það orð, frú forseti. Jafnvel þó að farið sé yfir textann í greinargerðinni sem fylgdi með er óljóst hvernig túlka á ýmis atriði.

Rætt hefur verið um vantraust, vantraust á þingið og vantraust á stjórnmálamenn. Ég er ekki sammála því að það kalli sérstaklega á endurskoðun stjórnarskrárinnar að einhverjir tali um slíkt vantraust. Við verðum hins vegar að endurskoða stjórnarskrána þegar við teljum að hún uppfylli ekki þau skilyrði sem við viljum búa samfélagi okkar og þar nefni ég auðlindakaflann á ný. Ég hef líka nefnt atriði sem snerta dómstóla, skipan dómara og þess háttar, og tel að þau þurfi í það minnsta að skoða.

Forsetakaflinn er býsna langur og ítarlegur í þessum tillögum og mikið hefur verið rætt um hann. Ég verð að viðurkenna að þær misvísandi túlkanir sem hafa komið fram í fjölmiðlum og í ræðum og riti um þann kafla eru vitanlega áskorun til allra um að hann verði skýrður nánar, tekinn af allur vafi um hvað þar er á ferðinni eins og á raunar við um aðra kafla í þessu plaggi.

Nokkrar athugasemdir bárust nefndinni frá einstaklingum sem lýstu sig einfaldlega sammála þeim tillögum sem stjórnlagaráðið lagði fram. Það eru að sjálfsögðu jafnmikilvægar athugasemdir og aðrar. Hins vegar erum við að tala um margar efnislegar athugasemdir sem hlýtur að þurfa að fara mjög vandlega yfir og meta áður en farið verður með einstakar greinar eða plaggið í heild í einhvers konar atkvæðagreiðslu eða skoðanakönnun.

Ein athyglisverðasta athugasemdin sem fram hefur komið, frú forseti, er frá tveimur ágætum mönnum, þeim Ágústi Þór Árnasyni, deildarforseta lagadeildar Háskólans á Akureyri, og Skúla Magnússyni, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Þeir sátu báðir í stjórnlaganefndinni sem svo var kölluð, ég vona að ég fari ekki með rangt mál þar. Athugasemdir þeirra eru mjög viðamiklar og taka á mjög mörgum eða nánast langflestum efnisatriðum og greinum í tillögum stjórnlagaráðsins. Ekki er hægt að líta fram hjá þeim athugasemdum. Þó að einhverjum kunni að liggja á að koma á breytingum á stjórnarskránni er ekki hægt að líta fram hjá efnislegum athugasemdum, heldur verður að fjalla um þær og þá hverja og eina, velta því upp hvort hún eigi rétt á sér.

Það kemur meðal annars fram í d-lið athugasemda frá þessum ágætu mönnum að erfitt sé að leggja heildarmat á það efnislega til hvers konar stjórnskipunar tillögur stjórnlagaráðs leiða, þ.e. hvers konar heildarstjórnskipun við yrðum með ef tillögurnar næðu allar fram að ganga. Þar á meðal lýsa þeir efasemdum um það hvort fögur fyrirheit um styrkingu Alþingis séu raunhæf, eða þeim yrði náð.

Í raun ganga þeir enn lengra og segja að þeir telji ekki ljóst að tillögurnar feli í sér raunverulega styrkingu Alþingis, hafi það verið verkefnið og ætlunin. Síðan er talað um að yfirsýn skorti og að ýmislegt rekist hvert á annað. Fjallað er um texta og síðan er farið í einstakar greinar.

Það eru líka jákvæðir hlutir í þessari athugasemd eins og til dæmis að eðlilegt sé að stjórnarskrá sé fylgt úr hlaði með aðfaraorðum. Ég held að það sé í sjálfu sér ágæt hugmynd, tóninn er þá sleginn fyrir innihaldið, það sem á að koma í framhaldinu. Ég tek undir það með þeim félögum að það er býsna gott.

Síðan eru hér greinar sem fleiri gera athugasemdir við, greinar er lúta til dæmis að eignarhaldi á jörðum, framsali, landakaupum og ýmsu þess háttar. Ég verð að segja að mér hrýs hugur við þeirri vegferð sem mér sýnist að lagt sé í í þessum tillögum þar sem verið er að slaka á þessum hlutum. Það er eins og tillögurnar séu á einhvern hátt gerðar til þess að auðvelda sölu á landi á Íslandi og eitthvað þess háttar. Ef það er rétt mat hjá mér, og þeim sem gert hafa athugasemdir við þann kafla, þá er það verulegt áhyggjuefni og má alls ekki gerast.

Í þessum tillögum felst líka ákveðin alþjóðavæðing á stjórnskipuninni og á stjórnarskránni. Ég velti fyrir mér hvers vegna lagt er upp með það. Stjórnarskráin er opnuð og hún er útþynnt, það er verið að alþjóðavæða hana, ég ætla bara að nota það orð um einstakar greinar, og maður spyr sig til hvers það sé gert.

Hér er líka kafli um kirkjuskipan. Ég er sammála þeim athugasemdum sem fram hafa komið, að ekki eigi að ákveða kirkjuskipan með þeim hætti sem gert er í tillögunum heldur eigi að fara fram um það sérstök umræða og atkvæðagreiðsla í framhaldi ef menn telja að meiri hluti sé fyrir því að breyta því. Þannig mætti áfram telja.

Frú forseti. Ég held að við séum á rangri leið með að gera breytingar á stjórnarskrá sem einhverjum kunna að finnast nauðsynlegar. Ég held að þetta mál muni sigla í strand. Það mun ekki sigla í strand vegna þess að ég og einhverjir aðrir erum á móti málinu, það mun ekki sigla í strand vegna þess að mikið verður talað í málinu, heldur mun það sigla í strand vegna þess að það gengur einfaldlega ekki upp. Það mun koma á daginn að aðferðafræðin sem lagt er af stað með gengur ekki upp. Þar af leiðandi hef ég ekki miklar áhyggjur af því að þingið muni sitja undir mikilli umræðu um þetta mál, vegna þess að það er allt á sömu bókina.

Ég ítreka það sem ég hef áður sagt að mörg okkar viljum breyta ákveðnum hlutum í stjórnarskránni en við teljum þetta ranga aðferð. Um það snúast fyrst og fremst þessar deilur og líka það að verið sé að skrifa nýja heildarstjórnarskrá. Sú sem er í gildi er ekki alslæm.

Frú forseti. Í tillögunum er talað um Lögréttu sem er að sjálfsögðu ágætisnafn á apparati sem á að hafa eftirlit með lögum og lagafrumvörpum. Í sjálfu sér er full ástæða til að horfa til þess að lagasetning sé bætt hér á landi. Hluti af því er að sjálfsögðu að styrkja Alþingi og tryggja að Alþingi geti unnið betur með frumvörp og mál sem eru til umræðu. En hugmyndir stjórnlagaráðs eru nokkuð aðrar en stjórnlaganefndar varðandi þessa síu eða gæðavottun sem átti að vera á lagafrumvörpunum og ég held að full ástæða sé til að skoða það sérstaklega.

Að öðru leyti, frú forseti, vil ég segja að ég er jafnmikið á móti þessu máli nú og ég var þegar það fór af stað eftir að Hæstiréttur kvað upp úrskurð sinn. Ég held að gerð hafi verið mistök hér þinginu með því að setja málið í þennan farveg. Það er rétt, sem fram hefur komið, að ekki er hægt að ætlast til þess að fullkomin sátt verði um breytingar á stjórnarskrá, eða um stjórnarskrá almennt, en ég held að hinn mikli meiningarmunur sem er á milli þingmanna í dag hefði ekki komið til hefði málið verið unnið á annan veg í upphafi.

Það er nú einu sinni þannig, hæstv. forseti, að það er hlutverk okkar hér í þinginu að ræða mál og rökræða það sem við erum ósammála um. Í því felst ekki rifrildi eða málþóf eða nokkuð annað. Það er eðlilegt að 63 þingmenn, fimm flokkar og nokkrir óháðir þingmenn, hafi ólíkar skoðanir á svo stóru máli sem þetta er.

Ef allt væri eðlilegt, sagði einn hv. þingmaður hér í ræðu, og taldi upp mörg atriði — ef allt væri eðlilegt, segi ég, værum við búin að gera ýmislegt hér á þinginu: Við værum búin að leysa skuldavanda heimilanna, við værum búin að koma atvinnulífinu á fullt skrið, við værum ekki að rífast um Evrópusambandið. En hins vegar er ekki allt eðlilegt og ef allt væri eðlilegt væri ríkisstjórnin að sjálfsögðu farin frá. Þannig er heimurinn því miður ekki, hann er ekki svo einfaldur. En við munum reyna að gera það besta sem við getum úr þessu.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, frú forseti, að ekki er við einstaka nefndarmenn að sakast í þessu máli, horfa þarf á myndina í heild.