140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hefur verið ágæt umræða í dag. Ég ætla ekki að víkja orðum að ræðu hv. síðasta ræðumanns, ég er viss um að hann útskýrir einhvern tíma betur fyrir mér hvað hann átti við með þessu öllu saman.

Mig langar að fara aðeins yfir nokkur atriði sem hafa komið fram í dag. Þetta hefur verið merkileg samræða á milli okkar og umræðan farið víða. Ég er þeirrar gerðar að mér finnst allt í lagi að fólk hafi mismunandi skoðanir og ég tel engan betri eða verri fyrir það. Við reynum hins vegar að halda okkar máli fram.

Ég vil í byrjun nefna að það gæti hafa litið þannig út í umræðum í dag, og var kannski ekki síst sjálfri mér að kenna í upphafi umræðunnar, að samstarfið í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd væri eins og í ólátabekk í gagnfræðaskóla. Það er alls ekki rétt, samstarfið hefur verið mjög gott. Hins vegar er alveg ljóst að í þessu máli eru mjög skiptar skoðanir. Það var ljóst að einhvern tíma á ferli málsins mundu leiðir skilja, ef svo má að orði komast. Það var með ráði gert að starfið var skipulagt þannig að við fórum í sem mestum friði þangað til tíminn gaf ekki leyfi til annars.

Ég hefði gjarnan viljað vera komin fram með þetta mál tveim vikum fyrr, en ákveðin mál sem komu til nefndarinnar ollu því að svo gat ekki orðið. Ég held samt að við eigum að geta náð því verkferli sem lýst er í tillögunni sem hér er lögð fram ef vilji er til, en það er náttúrlega ljóst líka að ef vilji er til er hægt að eyðileggja málið, það er klárt.

Ég vil leggja áherslu á að leita á til fulltrúa í stjórnlagaráði til að fara yfir nokkrar spurningar sem ég las upp áðan og voru nefndar á fundi í stjórnskipunarnefnd í byrjun vikunnar. Þar var þess einnig getið að ætlunin væri að semja með þessu greinargerð, og þegar spurningar lægju fyrir og greinargerð til að leggja fyrir stjórnlagaráðið yrði það birt í nefndinni. Ég nefndi þetta ekki í inngangsræðu minni í dag vegna þess að ég taldi mig vera að ræða um málsmeðferðina en ekki þær spurningar sem verða auðvitað kynntar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þetta er gert vegna þess að fulltrúar í stjórnlagaráði hafa lýst sig reiðubúna til að koma aftur að þessum tillögum áður en þær fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og taka á einhverjum álitamálum, og þá kemur stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fram fyrir þingið í þeim samræðum. Meiri hlutinn kom fram með þessar tillögur en minni hlutinn kom ekki með neinar tillögur, en það hefði vissulega verið vel þegið. Kannski á það eftir að breytast.

Mig langar líka að hafa orð á því að það er náttúrlega ljóst að þingið á eftir að fá til sín fullbúið frumvarp næsta haust, hvort sem það verður í október eða nóvember, og þá hefur þingið allan veturinn og alveg fram í mars til að ræða það, vegna þess að væntanlega verður það síðasta sem þetta þing gerir, vonandi, að samþykkja nýja stjórnarskrá. Þá hafa þingmenn alla þá möguleika sem þeir vilja til að koma með breytingartillögur og ræða þetta fram og til baka. Eins og um annað verða greidd um það atkvæði í þinginu, þannig að ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvað menn meina þegar þeir segja að ekki eigi að skoða þetta í þinginu. Þingið hefur allan næsta vetur til þess.

Það síðasta sem ég vil segja er að ég tel að eins og þessi dagskrá er sett upp og kemur fram í nefndarálitinu er mjög vel vinnandi vegur að ná henni, og ég þarf vart að segja þingmönnum að við höfum þegar hafið undirbúning að þeirri miklu vinnu sem hér hefur verið lýst, t.d. hvernig spurningar eiga að vera og annað slíkt. Við erum þegar byrjuð að vinna að því þannig að við verðum tilbúin að svara því þegar við leggjum fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sem sagt, ef menn vilja verður hægt að gera þetta. Ef menn vilja það ekki er ég alveg hreint viss um og trúi því eftir umræðuna í dag að mönnum takist að koma í veg fyrir það ef þeir svo kjósa. Þá geta þeir talað hér í tíu daga um — ja, ég veit ekki hvað, ég veit ekki um hvað sumir hafa verið að tala hér, en svo veit ég hvað aðrir hafa verið að tala um.