140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við í efnahags- og viðskiptanefnd áttum í morgun fund með Samtökum lánþega, Hagsmunasamtökum heimilanna og ýmsum öðrum aðilum sem hafa ábendingar í framhaldi af þeim gengislánadómi sem féll í Hæstarétti í síðustu viku. Meginálitaefnin sem til umfjöllunar voru í morgun eru af þrennum toga.

Í fyrsta lagi um aðfarir á grundvelli ólögmætra krafna og hvernig koma mætti í veg fyrir að af þeim yrði. Ég hef af því tilefni skrifað Fjármálaeftirlitinu og kannað hvort það hafi fullnægjandi heimildir til að stöðva frekari aðfarir sem byggjast á ólögmætum gengistryggðum lánum eða hvort sérstakra lagaheimilda er þörf í því efni.

Þá ræddum við möguleika á því að flýta gangi dómsmála sem geta skorið úr um mikilsverð álitamál í þessu sambandi. Það er ljóst að til þess þarf samkomulag þeirra aðila sem að þeim málum standa, bæði til sóknar og varnar, að vinna þau mál hratt og vel og nýta ekki til fulls þá fresti sem lögbundnir eru. Við munum fylgja því máli áfram eftir.

Í þriðja lagi var til umfjöllunar það sem var til umfjöllunar í þingsalnum í gær, heimild til endurupptöku mála sem lögfest var 2010 en kom ekki að nægilega góðu haldi. Við veltum fyrir okkur hvort hægt sé að lögfesta slíka heimild á nýjan leik. Ég óskaði eftir því við nefndasvið Alþingis að það færi yfir það hvort hér mætti lögfesta á nýjan leik slíka heimild og þá með þeim hætti að hún dygði. Ég geri ráð fyrir að niðurstöður úr þeirri vinnu liggi fyrir á föstudagsmorgni, (Forseti hringir.) virðulegur forseti.