140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi einmitt hitt naglann á höfuðið þegar hann sagði áðan að þessi dómur sem nýlega gekk hafi skapað meiri óvissu en vissu. Var þó ekki á það bætandi. Óvissan var nægileg fyrir hjá því fólki sem núna horfir til þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur gripið til og sagði reyndar á sínum tíma, fyrir tveimur árum, að væru til þess fallnar að ná algjörlega utan um skuldavanda heimilanna. Nú höfum við séð að svo er ekki og ríkisstjórnin hefur viðurkennt það líka með frekari aðgerðum. Nú getum við reynt að leggja dóm á þetta.

Samtök fjármálafyrirtækja hafa sent frá sér sundurliðun á því sem gert hefur verið til að lækka skuldir heimilanna. Þau hafa jafnframt sagt að með þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til sé búið að nýta að fullu það svigrúm sem hafi myndast þegar verið var að færa eignir og skuldir frá gömlu bönkunum yfir í hina nýju. Þetta eru 200 milljarðar kr. sem hafa verið notaðir til að lækka skuldir heimilanna.

Þegar þetta er brotið upp kemur hins vegar á daginn að ekki nema 50 milljarðar, 25% af þessum 200 milljörðum, eru ráðstafanir sem leiða af aðgerðum og lagasetningu ríkisstjórnarinnar, þ.e. sértæk skuldaaðlögun og 110%-leiðin. Allt annað, 150 milljarðar, leiðir hins vegar af því að þessi lán voru dæmd ólögleg. Það var með öðrum orðum einfaldlega brugðist við því sem blasti við eftir dóma Hæstaréttar. Þetta er sú staða sem uppi er og vekur auðvitað athygli á því að af hálfu ríkisins hefur greinilega ekki verið nægilega hugað að því að búa til einhvers konar almenna fyrirvara þegar þessi tilfærsla eigna og skulda átti sér stað og þar með er auðvitað vandinn sem við þurfum að glíma við miklu erfiðari. (Forseti hringir.)

Að lokum vil ég segja að það var rétt sem hv. þm. Helgi Hjörvar sagði, það þarf að flýta gangi dómsmála. Í því sambandi vek ég athygli á frumvarpi sem liggur fyrir um þetta mál frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.