140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér hafa eðli málsins samkvæmt verið rædd viðbrögð við gengisdómnum sem féll í síðustu viku. Það er sérstakt að við séum aftur komin þangað að það þurfi að fara yfir það mál allt saman vegna þess að sú redding sem þingið fór í hérna í lok árs 2010 hefur núna sprungið framan í þing og þjóð með því að Hæstiréttur dæmdi hana ólöglega.

Hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson benti á það að frumvarp sem ég er búinn að bíða eftir að fá að tala fyrir frá því í haust, um flýtingu dómsmála, er tilbúið og við hefðum betur samþykkt það á sínum tíma. Það er ekki nýtt mál af okkar hálfu því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flutti það á síðasta þingi.

Þó er nokkuð ljóst að við þurfum að vinna núna, þá sérstaklega í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, eftir þeirri forskrift sem var ágætlega lögð upp af formanni nefndarinnar. Við megum samt ekki missa sjónar af þeirri stöðu sem er í gangi núna. Það er grafalvarleg staða í efnahagsmálum þjóðarinnar. Sú eignabóla sem er að myndast núna er fyrst og fremst tilkomin af því að við erum búin að festa okkur í gjaldeyrishöftum og þær áætlanir sem farið var af stað með til að leysa þau hafa ekki gengið eftir.

Síðan er líka ljóst, virðulegi forseti, að vanræksla núverandi ríkisstjórnar hefur kostað hundruð milljarða. Það er fullkomin vanræksla að vera ekki með neina fyrirvara þegar menn kaupa vöru úr gömlu bönkunum í nýju bönkunum. Þar keyptu menn gallaða vöru (Forseti hringir.) og þeir sem munu borga fyrir það eru meðal annars þeir lántakendur sem hafa ekki fengið neina leiðréttingu. (Forseti hringir.) Eðli málsins samkvæmt minnkaði svigrúm bankanna þegar þessi vara (Forseti hringir.) var keypt jafngölluð og raun bar vitni.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur þingmenn til að virða tímamörk. Ræðutíminn er tvær mínútur undir þessum lið.)