140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:38]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í umræðum í gær leggjumst við þingmenn Sjálfstæðisflokksins á móti þeirri breytingartillögu sem meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur fram. Við teljum að það ferli sem hér er lagt upp með sé flókið og ruglingslegt og ekki til þess fallið að leiða til betri niðurstöðu. Við teljum að frekar ætti að fara í faglega og fræðilega vinnu og vinnu á vettvangi þingsins við að reyna að ná saman um tilteknar breytingar á stjórnarskránni. Við höfnum með öðrum orðum þeirri aðferðafræði sem hér er lagt upp með og óttumst að hún verði afar ruglingsleg í framkvæmd, m.a. með tilliti til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu sem talað er um í síðari lið tillögunnar.