140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:40]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér stígur Alþingi enn eitt skref á þeirri vegferð sem hófst strax eftir hrun og var lofað fyrir kosningar 2009, að setja Íslandi nýja stjórnarskrá. Ferlið fram að þessu er þekkt og hefur verið þyrnum stráð en áfram höfum við þokast skref fyrir skref.

Hér er gerð tillaga um að kalla saman stjórnlagaráð og bera undir það tiltekin álitamál og að í sumar verði leitað til þjóðarinnar í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu áður en málið kemur aftur til þings næsta haust í formi frumvarps að nýrri stjórnarskrá.

Þingsályktunartillagan sem við ræðum nú við síðari umræðu er mikilvægt skref í átt til þess að við næstu reglubundnu alþingiskosningar, vorið 2013, muni þjóðin geta kosið sér nýja stjórnarskrá. Ég fagna þessu skrefi og segi já.