140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

meðferð frumvarps stjórnlagaráðs til stjórnarskipunarlaga.

6. mál
[15:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé svartur dagur í sögu Alþingis. Síðan ég settist á þing hef ég varað við því hversu óvönduð mál koma út úr þinginu. Þetta er akkúrat dæmi um slíkt mál og spái ég því hinum mestu hamförum [Hlátur í þingsal.] vegna þess að það er ekki hægt að uppfylla þær kröfur sem er verið að samþykkja í dag. Þingið fær 17 daga til að leggja fram þingsályktunartillögu með þeim spurningum sem eiga að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu og það verður að vera búið að samþykkja hana hér 30. mars, frú forseti. Hér er á ferðinni enn eitt málið frá ríkisstjórninni sem leiðir til þess að þingið verði undirlagt í þessari umræðu allan mars til að beina sjónum annað, þ.e. frá vandræðagangi ríkisstjórnarinnar.

Daginn eftir að Hæstiréttur dæmdi þessa verklausu ríkisstjórn fyrir brot á stjórnarskrá var málið tekið út úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.

Frú forseti. Er ekki rétt að gera þær kröfur til ríkisstjórnar (Forseti hringir.) í fullvalda ríki að hún fari eftir stjórnarskránni áður en farið er að velta henni við og skrifa nýja? Þetta er hneyksli. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) [Kliður í þingsal.]