140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[16:15]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp skuli vera komið til umræðu. Það byggir á þingsályktun sem samþykkt var í síðustu viku sem fjallaði um að taka skyldi upp norræna hollustumerkið Skráargatið. Ég var 1. flutningsmaður á því máli og hef flutt það tvívegis á þingi. Fleiri þingmenn voru á því máli, einn úr hverjum flokki. Það eru hv. þingmenn Þuríður Backman, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Mörður Árnason.

Þegar mælt hafði verið fyrir málinu fór það til atvinnuveganefndar og þar fékk hv. þm. Þór Saari það hlutverk að vera talsmaður málsins. Afraksturinn er glæsilegur að mínu mati. Við samþykktum í síðustu viku þingsályktun sem fjallar um það að fela hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að flytja frumvarp um þetta mál. Þetta var prinsippákvörðun þingsins að fara í það mál.

Ég vil nota tækifærið og þakka atvinnuveganefnd fyrir góð vinnubrögð — ég sé að hv. þm. Kristján Möller, formaður nefndarinnar, er í salnum og aðrir nefndarmenn. Nefndin ákvað að taka þetta mál alla leið, þ.e. að semja líka frumvarp og um það erum við að fjalla núna. Ef frumvarpið verður samþykkt, sem ég á fastlega von á, er komin lagaheimild fyrir hæstv. ráðherra til að koma upp ákveðnu fyrirkomulagi þar sem meðal annars Skráargatið getur fallið inn í.

Frumvarpið er tvær greinar, 1. gr. er efnisgrein og 2. gr. er um það hvenær lögin öðlast gildi eins og hefðbundið er. Í greinargerðinni kemur fram að atvinnuveganefnd leitaði til Norðurlandanna varðandi upptöku Skráargatsins hjá þeim og ákvað að lagagrundvöllur þar dygði. Leitað var til Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs en þar er einmitt Skráargatið notað í dag. Skráargatið er fyrsta hollustumerkingin sem nær yfir landamæri, þ.e. sem er ekki aðeins notað í einu landi heldur í fleiri löndum. Nefndin gat því stuðst við heimildir sem eru í lögum á Norðurlöndunum og lagði til svipaðar reglur hjá okkur og frumvarpið gengur út á það.

Samkvæmt frumvarpinu verður ráðherra heimilað að setja reglugerð sem inniheldur ákvæði um að matvælafyrirtæki geti merkt matvæli sem þau framleiða eða dreifa með viðurkenndri áherslumerkingu sem gefur til kynna að matvælin séu í samræmi við stefnu stjórnvalda um manneldismarkmið, af miklum gæðum eða hafi önnur sameiginleg einkenni. Svo segir síðar að þó að megintilgangur frumvarpsins sé að gera ráðherra mögulegt að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið á matvörur framleiddar hérlendis þyki rétt — í frumvarpinu er reyndar notað orðið hallkvæmt sem er sjaldgæft að sjá — að honum verði á sama tíma fengin heimild til þess að setja reglugerðir um aðra viðurkennda áherslumerkingu matvæla. Frumvarpið gengur því út á að skapa breiðan grunn sem norræna hollustumerkið Skráargatið getur fallið inn í og hugsanlega fleiri merkingar í framtíðinni. Þetta er í samræmi við þá leið sem Danir hafa farið í „lov om fødevarer“ eins og löggjöfin heitir í Danmörku.

Hér er líka tilgreint, og ég vil gera það aðeins að umræðuefni, að hæstv. ráðherra geti með reglugerð heimilað til dæmis — hér er hugmynd á ferðinni — þeim framleiðendum landbúnaðarafurða sem fullvinna afurðir sínar heima fyrir í samræmi við ákvæði laga og reglugerða að merkja þær sérstakri merkingu sem gefi þetta sérkenni þeirra til kynna með einföldum og afgerandi hætti

Mér finnst þetta mjög spennandi. Vonandi sjáum við slíkar merkingar í framtíðinni og vonandi sjá bændur landsins hér markaðstækifæri til að selja afurðir sínar. Ég get nefnt af þessu tilefni að um síðustu helgi átti ég þess kost að kaupa nautakjöt beint frá býli í Langholtskoti í Biskupstungum. Þar keyrði maður upp að bænum og var leiddur út í vinnsluna þar sem allt var með mikilli prýði og gat keypt tilbúna hamborgara í lofttæmdum umbúðum, steikur og hakk og aðrar slíkar nautakjötsvörur. Hugsanlega vilja bændur fara í það að fá einhvers konar viðurkenndar merkingar á þessar vörur sínar sem gefa kannski meira til kynna en þær gera nú þegar. Þeir eru með ákveðna merkingu nú þegar en hér er alla vega lagagrunnur sem opnar það tækifæri að hollustumerkja slíkar vörur með frekar einföldum hætti.

Í frumvarpinu er líka fjallað um að ákveðið eftirlit eigi að vera með þessum merkingum og hvernig skuli fara með kostnað í því sambandi. Þá er tilgreint að leita skuli álits landlæknis við vinnslu þessa máls en samkvæmt lögum fer landlæknir með lýðheilsumál, lögunum var breytt fyrir ekki svo löngu í þá átt, og hann skal annast forvarna- og heilsueflingarverkefni og efla lýðheilsustarf. Landlæknisembættið býr yfir mikilli þekkingu á þessu sviði og embættið hefur lýst yfir áhuga á að taka þátt í innleiðingu hollustumerkisins Skráargatsins hér á landi. Er aðkoma landlæknis að þessum málum í samræmi við það fyrirkomulag sem er í Noregi. Við erum því að stíga skref í sömu átt og gert er í Noregi.

Hér er aðeins fjallað um að nauðsynlegt sé að varna því að áherslumerkingar verði misnotaðar. Það er eðlilegt að slíkt sé gert. Það þarf að vera eftirlit með vörunum svo það sé öruggt að innihald þeirra sé samkvæmt þeim stöðlum sem eru viðurkenndir þannig að þeir sem kaupa hér í framtíðinni vörur merktar Skráargatinu gangi að því með fullri vissu að sú vara er sú hollasta í þeim fæðuflokki, þ.e. að hún standist ákveðin viðmið um saltinnihald, sykurinnihald, fituinnihald, trefjainnihald o.s.frv.

Ég fagna því sérstaklega, virðulegi forseti, að þetta mál skuli komið fram og að þingið hafi burði og þrek til að klára það. Ráðherra þarf því ekki að fara í þá vinnu, nefndin hefur þegar unnið hana og er afrakstur hennar hér til umræðu og við getum vonandi afgreitt málið endanlega á næstu dögum. Þó að Alþingi hafi reyndar í síðustu viku tekið þá prinsippákvörðun að taka skuli upp norræna hollustumerkið erum við að landa því núna að lögin verði þess eðlis að ráðherra geti sett reglugerð sem kemur því fyrirkomulagi á og hugsanlega opnað fyrir fleiri jákvæðar hollustumerkingar eða áherslumerkingar á matvælum.