140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[16:41]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en vildi samt bregðast við þeim ágætu ræðum sem hér hafa verið fluttar af því að mér er málið skylt þar sem ég flutti einmitt þingsályktunartillöguna um að taka upp norræna hollustumerkið Skráargatið.

Ég kem hér upp til að taka undir þau sjónarmið sem komu fram hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni um hugsanlegar séríslenskar aðstæður og umræðuna um handverksbakarana. Skráargatið er opið fyrir umræðu af þessu tagi og hér er um að ræða samstarf sem fer fram á milli landanna. Neysluvenjur breytast og þróast og til eru dæmi þess að teknar hafa verið inn vörur sem ekki stóð til að taka inn í norræna Skráargatið í upphafi.

Þegar við ræddum þingsályktunartillöguna í byrjun febrúar og í síðustu viku kom einmitt þetta sjónarmið fram og þar var vísað til þess að Norðmenn borða gríðarlegt magn af frosnum pítsum og af þeim sökum höfðu þær verið teknar inn í norræna hollustumerkið Skráargatið. Það voru færð rök fyrir því að frosnar pítsur væru bara hluti af almennu mataræði í Noregi, sem er svolítið merkilegt. En hollustumerkið gengur út á að beina neytendum að hollum vörum og samþykkja merkið á vörur sem eru hollar, merkið á ekki að ýta undir neyslu á óhollum vörum. Þess vegna hafa menn ekki tekið inn í merkið sælgæti og gos og annað slíkt sem flokkast í heildina undir óhollar vörur.

Ég tel að við eigum að skoða þessi mál með samstarfsþjóðum okkar, ef við göngum til samstarfs um þetta merki sem allt bendir til að við gerum, og séríslenskar aðstæður verði athugaðar.

Ég vil líka nefna eitt vegna þess að það var rætt hér aðeins áðan, að í nefndinni var umræða um hvað það mundi kosta að auglýsa merkið og hvort setja ætti mikla peninga í það. Nú þegar hefur verið talsverð umræða um Skráargatið í fjölmiðlum og Neytendasamtökin hafa meðal annars beitt sér í því efni, Brynhildur Pétursdóttir hjá Neytendasamtökunum, og Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, og fleiri, og þingmenn og fjölmiðlar hafa sýnt þessu áhuga. Svo eru fyrirtæki sem nota merkið nú þegar, eins og t.d. MS sem hefur verið með ekki bara heilsíðuauglýsingar heldur opnuauglýsingar þar sem skyr.is drykkurinn er kynntur með Skráargatinu. Einnig er búið að merkja morgunkorn úr íslensku byggi með Skráargatinu.

Í Noregi hafa verið gerðar markaðskannanir sem sýna 10% söluaukningu á skráargatsmerktum vörum, það er bara hrein tala sem menn fundu út úr markaðskönnunum, og neytendur í Svíþjóð og Danmörku segja að merkið hafi haft áhrif á vöruval þeirra. Það er engin ástæða til að halda að annað verði upp á teningnum hér þannig að ég vona að þau fyrirtæki sem fá Skráargatið muni vera mjög ötul í að auglýsa vörur sínar og auðvitað að neytendur kaupi þær af því að þær eru þar með viðurkenndar sem hollastar í sínum vöruflokki.