140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

náttúruvernd.

63. mál
[16:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég kem upp í ræðupúlt til að fagna því frumvarpi sem hefur verið til umfjöllunar í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Sá sem hér stendur á ekki aðild að þeirri nefnd en hefur fylgst með málinu úr fjarska, fyrst þegar það var á hugmyndastigi og síðar meir þegar það kom til þings og nefndar.

Ástæða þess að ég fagna þessu máli er að ég tel að við Íslendingar höfum sýnt ákveðna linkind í þessum málum á undanliðnum árum og áratugum. Hér er í raun um eignarrétt að ræða vegna þess að landið er í sjálfu sér í okkar eigu og við þurfum að ganga um það eins og við förum með eigur okkar; við getum ekki farið verr með það en húsakynni okkar og innbú. Þess vegna þurfum við að tryggja það með öllum ráðum að sem best sé farið með landið okkar á hverjum tíma svo að við getum skilað því í ágætu ásigkomulagi til afkomenda okkar um alla framtíð.

Ég get tekið undir alla meginþætti þessa frumvarps og er í meginatriðum sammála þeim breytingum sem gerðar hafa verið á því í meðförum hv. téðrar nefndar. Ég tel að eðlilegt sé að hækka sektir úr 250.000 kr. upp í 350.000 kr., enda er eins og fram kemur í frumvarpinu sjálfu iðulega ef ekki alltaf um óafturkræf tjón að ræða á náttúru landsins, einkum viðkvæmustu svæðum þess í óbyggðum upp til fjalla þar sem menn hafa í skjóli fámennis getað stundað utanvegaakstur svo stórséð hefur á landinu okkar kæra.

Ég tek jafnframt undir það að til greina komi að gera ökutæki upptæk. Við þessum brotum eiga að vera þung viðurlög því að um er að ræða, eins og ég gat um áðan, óafturkræf spjöll á náttúrunni.

Það er umhugsunarefni að frumvarp í þessa veru skyldi ekki hafa komið fyrr fram á hinu háa Alþingi til varnar náttúrunni. Ferðaþjónusta mun vaxa gríðarlega á næstu árum og álagið á ferðamannastaði og vegi landsins mun aukast að miklum mun. Við sjáum fram á að Íslendingar taki brátt við um einni milljón ferðamanna á hverju ári — reyndar er ár fullmikið sagt í því efni vegna þess að álagið er á örfáum vikum ársins um mitt sumar og fyrir vikið hefur myndast hér allt of mikið álag á ákveðna staði landsins á tiltölulega skömmum tíma. Hv. þm. Þór Saari, sem er aðili að þessu frumvarpi og breytingartillögum, hefur orðað það svo að við Íslendingar búum við ákveðna ferðamannamengun nú um stundir, til dæmis í óbyggðum landsins, og taka beri á því og dreifa ferðamönnum betur yfir árið og yfir landið. Það er hins vegar önnur saga.

Alltént mun ferðaþjónusta hér á landi aukast að miklum mun á komandi árum samkvæmt öllum spám og rannsóknum sérfræðinga og þess vegna er tímabært að grípa til viðeigandi ráðstafana. Alþingi á að gefa skýr skilaboð um að ömurleg og léleg umgengni við landið sé ólíðandi og með þessu frumvarpi og þeim breytingum sem gerðar eru á því er komið til móts við það kall náttúruverndarsinna um allt land að við tökum okkur tak í þessum efnum og sjáum til þess að þeir sem fara verst um landið gjaldi fyrir það.