140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 97/2011 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

350. mál
[16:59]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Við tökum til umræðu tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn sem lýtur að almennri þjónustu.

Í tillögunni er kveðið um að Alþingi álykti að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar frá 28. júlí 2010 um breytingu á ákvörðun að því er varðar að semja, viðhalda og birta áreiðanlegar skrár um þá vottunaraðila sem aðildarríkin hafa eftirlit með eða veita faggildingu.

Hv. utanríkismálanefnd hefur fjallað um málið á fundum sínum og hefur ekki verið ágreiningur um það. Nefndarálitið frá hv. utanríkismálanefnd er því samþykkt einróma af hv. þingmönnum Árna Þór Sigurðssyni, Gunnari Braga Sveinssyni Illuga Gunnarssyni, Merði Árnasyni, Sigmundi Erni Rúnarssyni og Þuríði Backman.

Þar kemur fram að tilgangur ákvörðunarinnar er eingöngu tæknilegs eðlis, þ.e. að fyrrgreindar skrár verði vel læsilegar í stað þess að vera einungis læsilegar mönnum. Hér er um tæknilegt atriði að ræða sem engin ástæða er til að hafa pólitískan ágreining um.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt. Eins og fyrr greinir voru þeir sem sátu þennan fund allir samþykkir því. Hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, eins og fram kemur í nefndaráliti, en aðrir samþykktu málið.

Frú forseti. Ég legg til að málið verði samþykkt.