140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

vestnorrænt samstarf um listamannagistingu.

199. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Frú forseti. Tillagan sem hér um ræðir fjallar um listamannagistingu í þeim þremur löndum sem um ræðir í Vestnorræna samstarfinu, Grænlandi, Færeyjum og Íslandi.

Tilgangurinn með tillögunni er sá að gera vestnorrænum listamönnum eða rithöfundum kleift að dvelja um skeið í öðru vestnorrænu landi og njóta innblásturs frá náttúru og menningu þess lands í listsköpun sinni, eins og segir í formála þingsályktunartillögunnar sem kom til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd. Þar var lagt til að tillagan fengi samþykki óbreytt.

Undir það rita hv. þingmenn Sigmundur Ernir Rúnarsson, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Ásmundur Einar Daðason og Auður Lilja Erlingsdóttir.

Rétt er að taka fram að hv. þingmenn Bjarni Benediktsson, Helgi Hjörvar og Mörður Árnason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Enginn pólitískur ágreiningur reyndist vera um þetta mál og leggur því nefndin til að tillagan verði samþykkt óbreytt.