140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

innheimtuaðgerðir fjármálafyrirtækja og sýslumanna.

[10:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég gat einmitt munarins á þessu tvennu í fyrri ræðu minni, á sýslumönnum og almennum innheimtu- og fjármálafyrirtækjum. En auðvitað er mjög mikilvægt að heyra frekar frá hæstv. innanríkisráðherra hvaða skilaboð hann vill senda út til sýslumanna, eins og hann hefur komið inn á í fyrri ræðu sinni. Hann vill eiga orðastað við þá ágætu menn og konur hringinn í kringum landið. Mér leikur hugur á að vita hvaða skilaboð hann vill nákvæmlega senda út til þessara aðila.

Nú er það svo að í okkar samfélagi hefur réttur lánveitenda allt of lengi verið ríkari en réttur lántakenda og auðvitað þarf að taka á því og nú þegar er byrjað að taka á því með margvíslegum hætti. En betur má gera í þeim efnum vegna þess að við fórum allt of langt fram úr okkur í rétti lánveitenda á árum áður á kostnað lántakenda og erum að súpa seyðið af því nú á vorum dögum. En frekari skilaboð, hæstv. ráðherra, annars vegar til fjármálafyrirtækja og hins vegar til sýslumanna hringinn í kringum landið.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir hv. þingmenn á að beina máli sínu til forseta.)