140. löggjafarþing — 61. fundur,  23. feb. 2012.

fundur með sveitarstjórnarmönnum í Norðurlandi vestra.

[10:56]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er bara þannig að sveitarstjórnarmenn á Norðurlandi vestra hafa ekki verið virtir svars úr forsætisráðuneytinu, það er ekki flóknara en það. Nú upplýsir hæstv. forsætisráðherra að vísu að hún muni síðar í dag ræða það við sveitarstjórnarmenn að þeir komi á fund með henni einhvern tíma síðdegis, og það er vissulega vel. Það er loksins að hæstv. ráðherra vaknar til lífsins og svarar þessu erindi, það hefur þá tekið rúmlega þrjá mánuði að gera það.

Fundurinn í dag er auðvitað ekkert svar við þessu bréfi. Fundurinn í dag, sem hæstv. ráðherra vísar til, með sveitarstjórnarmönnum alls staðar að af landinu, er af allt öðrum toga. Þar eiga til dæmis sveitarstjórnarmennirnir á Norðurlandi vestra að fá heilar tvær mínútur til að spyrja hæstv. ráðherra. Það er út af fyrir sig jákvætt að það sé þó komið að því að halda þennan fund og það er gert eftir mikla eftirgangsmuni, eftir að það er tekið upp á Alþingi og eftir að sveitarstjórnarmenn hafa þráfaldlega gert athugasemdir við þetta framferði úr forsætisráðuneytinu og villandi upplýsingar sem þaðan hafa borist.

Þetta er mjög alvarleg staða eins og ég nefndi áðan. Það er 200 manna fólksfækkun á síðasta ári, 75% fólksfækkunar á landsbyggðinni. Það er viðvarandi neikvæður hagvöxtur og ég vek athygli á einu: Það hefur fækkað um 65 manns úr opinberum störfum bara í Skagafirði á síðustu þremur árum og þar af úr heilbrigðisstofnuninni um 35 manns.